150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

borgarlína og veggjöld.

[15:12]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég held að síðasta yfirlýsing hv. þingmanns sé röng þó að okkur finnist auðvitað öllum nóg um hvað við greiðum til hins opinbera. Það hefur verið unnið samkvæmt þeirri stefnu hér mjög lengi að afnema svokallaðar markaðar tekjur og ég er sannfærður um að hv. þingmaður, fari hún að hugsa út í það hvað gæti gerst ef allar tekjur væru markaðar, myndi komast að því að hún væri mér sammála um að það væri óskynsamlegt, ef t.d. þeir sem ættu leikskólabörn ættu að borga allan þann kostnað og ekki aðrir og við dreifðum ekki skatttekjum okkar með þeim hætti að koma til móts við þá sem þurfa á því að halda og þess vegna væru markaðar tekjur aflagðar.

Það var ýmislegt sem hv. þingmaður fór hér yfir sem er auðvitað gripið úr loftinu, einhverjum fréttaflutningi. Það er stefnt að því að undirrita og kynna þetta samkomulag á fimmtudaginn. Ég hef haft frumkvæði að því núna í tvígang að boða þingmenn til sérstaks samráðs áður en að því kæmi, hef boðað til fundar með þingmönnum höfuðborgarsvæðisins á miðvikudaginn og vonast til að sjá sem flesta sem geta vegna annarra starfa. Samráðið hefur verið mjög mikið. Það er verið að semja við sex sveitarfélög.

Stóra sagan í þessu máli, hv. þingmaður, er að það eru óleysanlegir hnútar í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Þeir hafa verið það lengi og ein af ástæðunum fyrir því að við höfum ekki náð að leysa þá er að við höfum ekki getað sest niður og lagt allar lausnir á borðið. Ég er ekki sérfræðingur í borgarlínu sem var ein spurningin sem hv. þingmaður kom með. En með því að setja alla anga saman, að allir setjist saman og finni út hina sameiginlegu lausn, teljum við að við séum að fara að leysa þennan umferðarvanda og vonandi mun það ganga.