150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

fríverslunarsamningar við Bandaríkin.

[15:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er ánægður með að hv. þingmaður taki upp þetta mikilvæga málefni. Ég verð samt að viðurkenna að mér kom inngangur hv. þingmanns svolítið á óvart vegna þess að það sem þar kom fram stenst ekki allt. Þá er ég ekki bara að tala um þá missögn að aðgerðaáætlunin heiti Belti og brú, hún heitir Belti og braut, heldur sömuleiðis að Bandaríkin hafi lagt meiri áherslu á tvíhliða samninga. Við höfum haft áhyggjur af því og ekkert farið í felur með það að við höfum áhyggjur af því að ekki sé lögð jafn mikil áhersla á fjölþjóðasamstarf í viðskiptamálum eins og Alþjóðaviðskiptastofnunin gerir. Sú afstaða okkar er mjög vel þekkt.

Ég hélt líka, virðulegur forseti, að stefna okkar hvað varðar norðurslóðir væri vel þekkt. Ekki bara höfum við rætt hana í þinginu, m.a. í tilefni af formennsku okkar, heldur höfum við svo sannarlega rætt um hana hvað eftir annað í utanríkismálanefnd. Hún stendur fyrir sínu og ég er mjög ánægður með hana. Ég er líka mjög ánægður með þá þverpólitísku samstöðu sem um hana ríkir. Auðvitað hefur Ísland alltaf verið staðsett þar sem það er. Það má vel vera að við séum strategískt mikilvæg og höfum alltaf verið, þó sérstaklega núna þegar þessar breytingar eru á norðurslóðum. Þó að hér séu nefnd stórveldi eru miklu fleiri sem líta til þessara svæða. Við höldum okkar línu hvað utanríkisstefnu okkar varðar og því verður ekki breytt.

Eitt af því sem við höfum lagt áherslu á er að efla fríverslun okkar. Frá því að ég tók við embætti hef ég talað fyrir því að ná fríverslunarsamningi við Bandaríkin. Það er ánægjulegt að við Mike Pompeo skyldum ákveða að fara í efnahagssamráð þegar hann kom hingað í febrúar og við höfum stigið skref hvað það varðar. Það er líka gott ef það er kemur stuðningur. Maður fann fyrir því, ég hitti ekki bara þingmenn Repúblikana í síðustu viku heldur sömuleiðis Demókrata, að menn líta meira til okkar og hafa (Forseti hringir.) skilning á stefnu okkar en við erum alls ekki komin í mark hvað það varðar. Við munum halda áfram að efla og styrkja fríverslunarnetið okkar, og að sjálfsögðu þegar kemur að Bandaríkjunum.