150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

fjölmiðlanefnd.

[15:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Eins og auðvitað er kunnugt um er fjölmiðlanefnd sjálfstæð og fulltrúar sem eru skipaðir í nefndina. Við þurfum alltaf að gæta þess að öll umgjörð í kringum fjölmiðlanefnd sé þannig að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að sjálfstæði hennar sé að einhverju leyti ógnað. Ég tel hins vegar tímabært að endurskoða lögin og ég tel líka mjög brýnt að meðal aðila eins og Blaðamannafélags Íslands geti ríkt sátt um störf fjölmiðlanefndar. Þegar kominn er upp sá vandi sem hv. þingmaður nefnir er varðar 26. gr. tel ég að þingið og þá viðkomandi ráðuneyti eigi að taka það til sín, bæta og skýra þannig að árekstrar af þessu tagi eigi sér ekki stað.