150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

auðlindir og auðlindagjöld.

21. mál
[18:33]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um auðlindir og auðlindagjöld sem gengur út á að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að skipa starfshóp sem skili tillögum um hvort innheimta eigi afnotagjald fyrir nýtingu auðlinda, leggi fram tillögu um aðferð við álagningu auðlindagjalds sem gæti gengið fyrir allar auðlindir og loks að starfshópurinn taki saman upplýsingar um tilhögun í þessa veru í nágrannalöndum. Starfshópurinn skili tillögum til ráðherra fyrir 1. maí 2020.

Ég þakka flutningsmanni, hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni, fyrir að leggja fram þetta mikilvæga mál en ég er meðflutningsmaður hans á málinu ásamt sjö öðrum hv. þingmönnum. Hér er að mínu viti um afar mikilvægt mál að ræða og fátt er brýnna í náinni framtíð en að gera tillögur um hvernig við sem þjóð ætlum að varðveita auðlindir okkar og hvernig og hvort skuli taka gjald fyrir nýtingu þeirra.

Þetta er alls ekki einfalt viðfangsefni. Auðlindir okkar eru sífellt að verða dýrmætari og því meira áríðandi að búa svo um hnútana að þjóðin njóti ávaxta af þeim. Það kemur fram að ekki liggur fyrir að unnt sé að telja upp auðlindir þjóðarinnar svo tæmandi sé, svo ört breytist tíðarandinn. Áður fyrr var þetta einfalt, landsmenn yrktu jörðina, sóttu sjóinn og drukku vatnið, en í dag má segja að margt hafi bæst við. Þetta er á sjó, í lofti og á landi, fiskurinn í sjónum, öll þau aðföng sem þaðan koma, fuglar himins og loft og landið eða jarðnæðið. Síðan er það orkan okkar, mikilvægasta auðlindin ásamt fiskveiðiauðlindinni, og hvernig skuli fara með nýtingu á fallvötnunum, en stöðugt bætist þarna við. Það bætist við jarðhitann. Ekki fyrir löngu fóru menn að bora mun dýpra en áður. Það eru háhitasvæðin, þau eru auðlind, sjávarföllin, ölduorkan, vindurinn, vindorkan, hreina vatnið okkar sem verður sífellt dýrmætara, herra forseti, og við verðum að ganga betur um landið til að varðveita einmitt vatnsuppspretturnar. Við getum ekki leyft okkur að urða sorp öllu lengur um allar koppagrundir. Tæknin er orðin fullkomnari en svo að við þurfum að gera það. Við eigum að farga sorpi á eins umhverfisvænan hátt og unnt er. Í framtíðinni getur hreina vatnið okkar orðið okkar ein okkar mikilvægasta auðlind og við verðum að varðveita það. Við getum ekki gengið um landið eins og enginn komi á eftir okkur.

Náttúrufegurð landsins er ein af auðlindum okkar en undir það flokkast ýmislegt, eins og t.d. óskert útsýni, hreinleiki, jafnvel sú auðlind að eiga náttúru sem er að mestu laus við mannmergð. En það er líka auðlind að mínu viti að geta notið næturmyrkursins, t.d. til skoðunar á næturhimni í friði fyrir ljósagangi. Það er kannski auðlind sem fer hratt þverrandi.

Loks má nefna hreina loftið okkar þó að við getum kannski ekki handsamað það því að það kemur alls staðar að. Margar þessar auðlindir skarast að miklu leyti. Ég bendi á það, herra forseti, að margar þeirra skarast, t.d. vindorkan og útsýni. Ef við nýtum vindinn skerðum við um leið útsýni til að njóta náttúrufegurðar. Það er alls ekki einfalt mál hvernig við ætlum að haga nýtingu í framtíðinni á auðlindum okkar og gjaldtöku yfirleitt, hvort það sé mögulegt eða ekki og hvar mörkin eru þá. Það er mikilvægt að þessi starfshópur taki til starfa og leggi fram tillögur, hugi að því hvernig þessu er háttað meðal annarra þjóða og komi með tillögur um hvort þjóðin geti tekið auðlindagjald af fleiri auðlindum en fiskveiðiauðlindinni.

Ég fagna þessari tillögu og legg til að hún verði samþykkt og starfshópur skipaður.