152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

leiðrétting kjara lífeyrisþega.

[13:19]
Horfa

félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og árnaðaróskir í minn garð í nýju embætti. Við vitum að við eigum verk að vinna þegar kemur að því að bæta kjör þeirra sem minnst hafa í samfélaginu og stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar endurspeglar þær áherslur. Þar myndi ég segja að við eigum sérstaklega fyrir höndum að endurskipuleggja kerfið sem snýr að örorkulífeyrisþegum, en við eigum líka verkefni fram undan að gera enn betur en gert hefur verið þegar kemur að eldra fólki. Þar voru vissulega stigin skref á síðasta kjörtímabili, eins og hv. þingmaður þekkir vel, með sérstökum viðbótarstuðningi og löggjöf héðan frá Alþingi.

En að þeim spurningum sem hv. þingmaður beinir til mín. Hv. þingmaður vill vita hvort það verði eingreiðsla fyrir þessi jól líkt og gert var í fyrra. Það var gert fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, þeir fengu 50.000 kr. eingreiðslu í fyrra til viðbótar við þessa hefðbundnu desemberuppbót sem kemur til greiðslu árlega. Þetta var vissulega eingreiðsla sem kom til sem viðbragð við Covid-19 faraldrinum. Það hefur þegar verið gengið frá desemberuppbót fyrir eldra fólk og fyrir öryrkja, en við höfum ekki verið að horfa til þess að það komi til eingreiðsla að þessu sinni. En ég vil líka leggja sérstaka áherslu á að við þurfum að horfa til þess að endurskoða þetta kerfi í heild sinni og það verður forgangsverkefni hjá mér.