152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

efnahagsaðgerðir og húsnæðismál.

[13:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins varðandi aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar, brúarlánin og aðrar aðgerðir sem við kynntum til sögunnar hér í þinginu, þá verð ég að segja að uppgjörið við þessa efnahagspakka hafi komið vel út fyrir stjórnina. Við sjáum á efnahagsumsvifunum, nýjum störfum o.s.frv. að við höfum náð utan um vandann og jafnvel þótt við höfum í upphafi faraldursins verið með hugmyndir um að brúarlán með ríkisábyrgð gætu komið að gagni, sem ekki reyndist síðan nauðsynlegt að hafa útistandandi, þá held ég að það sé ekki til vitnis um að við höfum verið á rangri braut. Við vorum að gera það sem við gátum miðað við þær aðstæður sem við þekktum þá. Svo brugðumst við við með meiri beinum stuðningi síðar.

Um húsnæðismarkaðinn verð ég að byrja á því að segja að þær aðgerðir sem helst reynir á núna og hafa komið að gagni má rekja til flokkanna sem nú starfa saman. Umbreyting á almenna íbúðakerfinu, hlutdeildarlánin, þetta eru nýju kerfin sem við höfum tekið í gagnið til þess að mæta þörfum á húsnæðismarkaði. Við heyrum það frá verkalýðshreyfingunni að það hefur hins vegar gengið illa að fá lóðir og koma af stað byggingu. Síðast í gær sat ég fund þar sem þetta kom fram. Síðast í gær heyrði ég beint frá fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar, að það hafi gengið illa að fá úthlutað og hefja byggingu á íbúðum í almenna íbúðakerfinu þrátt fyrir að fjármagnið sé tryggt. Það eru þess vegna ákveðnar stíflur í pípunum sem ég held að við þurfum að bregðast við. En það er ástæða til að hafa áhyggjur af þessum varnaðarorðum frá Seðlabankanum. Þó verð ég að segja: Ef við skoðum í sögulegu samhengi stöðuna á húsnæðismarkaði í dag, borið saman við það t.d. sem átti við þegar maður sjálfur var að fara inn á húsnæðismarkaðinn og þurfti að taka 20% afföll á húsbréfum (Forseti hringir.) á fyrsta degi húsnæðisviðskipta, þá erum við á góðum stað í dag og húsnæðisvextir tiltölulega hóflegir.