152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

sóttvarnaaðgerðir og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:52]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir skýrsluna. Við stöndum frammi fyrir mörgum siðferðilegum spurningum sem við höfum beðið með að svara í nær tvö ár í sífelldri von um að þessi heimsfaraldur klárist á næstu vikum eða mánuðum. Við þurfum að spyrja okkur hvort við ætlum að skylda fólk í bólusetningar, hvort við ætlum að skylda fólk til að upplýsa reglulega um heilsufarsupplýsingar sínar, hvort við ætlum að takmarka aðgengi óbólusettra að þjónustu, hvort við ætlum að takmarka ferðafrelsi óbólusettra til og frá landinu og hvort við ætlum að veita bólusettum undanþágur frá hinum ýmsu takmörkunum. Allt eru þetta erfiðar spurningar sem fela í sér mismunandi sviptingu á borgaralegu frelsi.

Sem einstaklingur sem þegar er með nær öll þau bóluefni sem gefin eru í heiminum fljótandi um mínar æðar, þar með talda þrjá skammta af Covid-bóluefni, þá hafa kannski fæst þessi atriði mikil áhrif á mig persónulega en ég er hins vegar meðvitaður um að það er fólk sem hefur aðrar skoðanir en ég í þessum málum og jafnvel, þó að ég sé ekki sammála sumum þeirra og skoðunum þeirra, þá tel ég það mikilvægt, reyndar mjög mikilvægt, að við tökum umræðu um takmarkanir á borgaralegu frelsi. Þetta er sérstaklega mikilvægt nú þegar augljóst er að við þurfum ekki bara að læra að lifa með veirunni í einhvern stuttan tíma heldur jafnvel um ókomna tíð.

Það er líka mikilvægt að líta á það af hverju við erum með harðari takmarkanir en fjöldi smita á hverja 1.000 íbúa gefur ástæðu til. Ástæðan er sú að ríkisstjórn síðasta kjörtímabils hefur skilið heilbrigðiskerfið eftir í rúst. Þá er ég ekki bara að tala um ástandið á Landspítalanum heldur um kerfið allt saman. Það er í molum.

Tökum einfalt dæmi og nærtækt. Fyrsti mögulegi tími fyrir mig til þess að fá tíma hjá heimilislækni er eftir fjórar vikur, í byrjun janúar. Ég er hræddur um að það sem kannski hrjáir mig núna sé í 80% tilfella búið að klárast á þeim tíma eða mögulega orðið miklu verra. Ef ég vel að fara á læknavaktina má ég búast við því að bíða í allt að átta til níu klukkustundir eftir að það komi að mér og að læknirinn sem tekur á móti mér sé undir miklu álagi og geti því miður ekki gefið sér mikinn tíma til þess að meta hvað hrjáir mig. Sé ástandið hjá mér alvarlegra þá þarf ég að bíða í svipaðan tíma, jafnvel lengur, þ.e. ef mér er ekki vísað frá, á 20tökunni. Þar hefur verið viðvarandi neyðarástand undanfarin ár og starfsfólkið er útkeyrt. Þetta fyrirkomulag er hvorki skynsamlegt, hagkvæmt né mannúðlegt, hvorki fyrir heilbrigðisstarfsmenn né notendur þjónustunnar.

Hæstv. heilbrigðisráðherra fer með fögur fyrirheit um auknar fjárfestingar í heilbrigðismálum á komandi ári en loforðin eru ekki eins stórfengleg og fagrar yfirlýsingar gefa til kynna. Þegar betur er að gáð er raunvöxturinn milli ára ekki nema 1,5 milljarðar, ekki síst vegna fjölgunar og öldrunar þjóðarinnar. Restin er meira og minna gamlar fjárhæðir sem verið er að tromma upp sem nýjar. Svona ráðum við ekki niðurlögum mönnunarvandans sem hefur reynst heilbrigðiskerfinu fjötur um fót og nauðsynlegt er að ráða bug á.

Hið góða blað Morgunblaðið sagði fyrir stuttu að um 2.000 heilbrigðisstarfsmenn hefðu flúið land á undanförnum áratug. Ég er sannfærður um að ef flokkar hér á þingi taka höndum saman í stað þess að berjast í skotgröfum þá höfum við tækifæri til þess að byggja upp heilbrigðiskerfi svo það geti staðist heimsfaraldra og aðra vá sem mun koma. Ég hvet háttvirta kollega mína til að setja hag sjúklinga í forgang og hlusta á tillögur og athugasemdir hver annars svo tryggja megi heilbrigt Ísland til framtíðar.