152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

sóttvarnaaðgerðir og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu um skýrslu mína um þessar aðgerðir og stöðuna í faraldrinum. Ég skrifaði hjá mér ábendingar og góðar umsagnir allra þeirra sem hér tóku til máls og væri svo sannarlega til í það — horfi bara á tímann — að bregðast við þeim öllum hér og nú. En þá er þetta auðvitað farið út um gluggann eins og áðan. Ég vil þó segja hér að það er sjálfsagt mál að koma að skýrslunni sem liggur til grundvallar því sem ég reyndi að koma hér á framfæri í fyrri ræðu, því sem sneri að tímalínunni og í samhengi aðgerða og stöðunnar á faraldrinum nú. Þá er hinn hlutinn sem fylgir og snýr að mörgum þeim ábendingum sem komu hér og koma inn á meðalhófið og samfélagið okkar og hvernig okkur tekst, samhliða því að draga lærdóm af því hvernig aðgerðirnar skila sér, að halda samfélaginu sem mest gangandi. Spurt var um langtímaplan. Það eru auðvitað þessi stig sem við þurfum að feta eftir því sem við lærum meira, þrátt fyrir hegðun veirunnar og óvissuna sem því fylgir, að halda samfélaginu gangandi. Það er verkefnið, það er alltaf í forgangi að verja líf og heilsu. Þetta er það sem ég get tekið utan um varðandi langtímaplan.

Varðandi bólusetningarnar vil ég segja að við viljum ekki skipta þjóðinni upp í hópa. Tölfræði og ávinningur af því að beita bólusetningum og tilmæli um það er eitt. Að skipta þjóðinni upp kemur ekki til greina af minni hálfu og er allt annað. Ég held að við þurfum að taka þá umræðu miklu frekar og ekki síst, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Diljár Mistar Einarsdóttur hér áðan, varðandi börnin. (Forseti hringir.) Þar er auðvitað þetta félagslega og andlega sem snýr að þeirra heilsu, (Forseti hringir.) það er eitt þegar við tökum ákvarðanir fyrir okkur sjálf og svo annað fyrir börnin. Við þurfum að huga að þeirra heilsu, (Forseti hringir.) en jafnframt að líf þeirra truflist sem minnst þannig að þau geti sinnt skóla á tómstundum og öllu því. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Ég hélt að ég nyti hér góðvildar [Hlátur í þingsal.] verandi í sama flokki, en ég átta mig á reglum þingsins og bið afsökunar. Ég skal skila þessari skýrslu.

(Forseti (LínS): Forseti minnir á að allir þurfa að virða tímamörk hér. [Hlátur í þingsal.] En forseti vill líka nefna það hér að æskilegt gæti verið að skoða annars konar form á umræðu sem þessari til þess að auka tækifærin til samtals.)