152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

aðgerðir gegn kynferðisbrotum og aukinn stuðningur við þolendur.

16. mál
[15:29]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Á öðru ári mínu við lagadeild Háskóla Íslands fyrir mjög mörgum árum lærði ég refsirétt. Þar lærði ég m.a. um tilgang og markmið refsinga og eitt af þeim markmiðum var að skapa fælingaráhrif í samfélaginu, að fæla fólk frá því að fremja afbrot. Á þessum tíma var mjög hávær krafa í samfélaginu um þyngingu refsinga í kynferðisbrotamálum. Krafan spratt vitanlega af því hversu alvarlegum augum litið er á slík brot í okkar samfélagi og hefur verið í seinni tíð. Í samhengi við þessa umræðu vakti það athygli mína, sem við lærðum einnig í refsiréttinum, hversu lág ítrekunartíðni var í nauðgunarmálum. Hún var, a.m.k. samkvæmt þeirri tölfræði sem okkur var kynnt á þeim tíma, lítil sem engin. Menn sem höfðu verið dæmdir fyrir nauðgun virtust samkvæmt þeirri tölfræði alls ólíklegir til þess að endurtaka brot sín jafnvel þó að refsingar fyrir slík brot væru ákaflega vægar í samanburði við önnur brot og í samanburði við alvarleika brotsins. Þetta vakti upp þær spurningar í huga laganemans hver væri tilgangurinn með því að þyngja refsingar ef þær dygðu bara ágætlega eins og þær voru, þegar þær virtust hafa þann fælingarmátt sem þeim var ætlað að hafa, alla vega að hluta til. Hvers vegna þyrfti þá að þyngja þær?

Þessar spurningar urðu síðar kveikjan að meistararitgerð minni í lögfræði sem ég skilaði nokkrum árum síðar, árið 2009. Ég taldi alveg ljóst þá og tel enn eftir að hafa skoðað þetta, að orsökin fyrir því að kynferðisbrot voru jafn mikið vandamál í samfélaginu og raun bar vitni, sem hafði komið af stað bylgju krafna um þyngingu refsinga fyrir slík brot, væri allsendis ekki sú að þeir sem gerðust sekir um slík brot hefðu einfaldlega engar áhyggjur af refsingunni því að hún væri ekki svo slæm. Eitt ár í fangelsi, ekkert mál, ég læt vaða. Nei, vandinn lá og liggur enn annars staðar. Hér má ég til með að ítreka að þetta var árið 2005, fyrir rúmum 16 árum.

Vandinn er ekki sá að refsingar séu ekki nógu þungar. Vandinn er annars vegar fólginn í djúpstæðum menningarlegum áskorunum sem við glímum enn við, en einnig í því kerfi sem við búum enn við sem byggt var upp af fullorðnum körlum til að leysa vandamál fullorðinna karla í upphafi. Þótt kerfið hafi að einhverju leyti þróast og breyst í tímans rás er það enn í allri grunnhugsun að baki afar óhentugt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, til að sporna við kynferðisbrotum og kynbundnu ofbeldi.

Á þessu kerfi þarf að gera róttækar breytingar og algerlega umbylta grunnhugsuninni að baki því, og það mun róttækari breytingar en koma fram í þingsályktunartillögunni. Tillagan felur eingöngu í sér allra nauðsynlegustu skrefin til þess að byrja að leysa úr vanda sem kerfið hefur verið fast í þrátt fyrir hávært ákall um úrbætur í áraraðir og jafnvel er hægt að segja áratugi. Það eru gallar sem gera að verkum að kerfið okkar er illa til þess fallið að kljást við þetta alvarlega vandamál í samfélagi okkar og er ljóst að ýmsar breytingar er hægt að gera til bóta. Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru algjört lágmark og aðeins það allra nauðsynlegasta sem ráðast þarf í til að bæta kerfið eins og það er.

Ég tel okkur öll í þessum sal, og aðra hv. þingmenn utan hans, geta verið sammála um þessi skref. Ég vænti þess að málið muni njóta víðtæks stuðnings á þessu þingi þvert á flokka og flokkspólitíska hagsmuni. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að hafa haft frumkvæðið að því.