152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

aðgerðir gegn kynferðisbrotum og aukinn stuðningur við þolendur.

16. mál
[15:45]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Tími þolenda er kominn. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir að koma fram með þetta mál. Ég er einnig þakklát fyrir að það nái að koma fram í upphafi þingvetrar svo við getum tekið umræðuna og farið á dýptina. Greinargerð málsins er virkilega góð, eins og aðrir hafa sagt hér, og ég hvet sem flesta til að kynna sér þetta mál. — Takk fyrir að deila sögu þinni með okkur.

Ég, eins og margar aðrar, þekki því miður þessar sögur og reynslu á eigin skinni. Þolendur hafa lengi beðið eftir raunverulegum réttarbótum og ég er því hjartanlega sammála að bæta þurfi stöðu brotaþola í kerfinu. Ég tek heils hugar undir að gera þurfi brotaþola aðila síns máls. Það er auðvitað veruleg skekkja að alvarleg brot gegn manneskju verði ekki til þess að hún hafi raunverulega aðild að sínu máli. Þetta þarf að laga. Ég vænti þess líka að staða réttargæslumanns verði bætt en það tíðkast mjög að kvenkyns lögmenn sinni því starfi og fái því ekki greiddan þann raunverulega tíma sem þær sinna þessum málum af því að eðli málsins samkvæmt eru þetta þung mál. Það þarf líka að laga þetta bara til að lyfta þessum málum svolítið upp.

Sú aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota sem nú er í gildi er góð, en ég bind miklar vonir við að næsta áætlun verði metnaðarfull, hún verði vel unnin og aðgerðir hennar komist allar í framkvæmd. Við þurfum því að sinna virku og góðu aðhaldi hér.

Í lokin vildi ég bara segja: Ég trúi þolendum og ég stend með þolendum.