152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

129. mál
[16:45]
Horfa

Flm. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður, sem þekkir innviði Ríkisútvarpsins býsna vel, sagði hér í ræðu sinni — ég held að þetta sé orðrétt, a.m.k. efnislega rétt, með leyfi forseta: Ef við værum að stofnsetja Ríkisútvarpið í dag yrði það öðruvísi en það er nú.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvaða hlutverk, sem verið er að sinna í dag, væri líklegt að yrðu annaðhvort slegin af eða væru unnin af einkaaðilum eða á einhverju öðru formi en þau eru unnin í Efstaleiti. Jafnframt kom hv. þingmaður inn á í ræðu sinni að hlutverk Ríkisútvarpsins væri auðvitað, eins og við þekkjum, m.a. að búa til menningarefni og varðveita menningararfinn. En varðandi það atriði sem snýr að því að búa til menningarefni hefur mér sýnst ganga ótrúlega vel undanfarin töluvert mörg ár að búa til algerlega frábært og framúrskarandi íslenskt menningarefni og sjónvarp. Og oft eru það einkaaðilar sem búa það til, mögulega með einhvers konar samningi eða útboði í gegnum Ríkisútvarpið. En í öllu falli eru öflugir einkaaðilar að gera frábæra hluti úti um allan bæ.

Er ekki hv. þingmaður sammála mér um að þó að fjárveitingar færu ekki með beinum hætti til Ríkisútvarpsins heldur annarra miðla væri það líklegt til að virka sem hvatning bæði fyrir Ríkisútvarpið til að halda enn þá betur á sínum málum — án þess að ég sé að leggja til að Ríkisútvarpið fari í það að verða fullkominn dægurmálamiðill — og sömuleiðis að það yrði hvatning (Forseti hringir.) til héraðsmiðla, þeirra sem standa í gerð menningarefnis, til að bæta enn í?