Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

Virðismat kvennastarfa.

[11:46]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir þessa nauðsynlegu umræðu. Umræða sem þessi þarf sífellt að vera á lofti þar til fullu jafnrétti hefur verið náð. Því miður hafa hefðbundin kvennastörf lengi verið vanmetin á kerfislægan hátt og enn eru til staðar úreltar hugmyndir í samfélaginu um hlutverk kynjanna sem viðhalda þessu misrétti. En þetta er ekki séríslenskt vandamál. Rannsóknir sýna að kerfisbundið vanmat á svonefndum kvennastörfum leiðir til lægri launa um allan heim og er meginástæðan fyrir kynbundnum launamun. Það hefur dregið úr launamun kynjanna á undanförnum árum, m.a. vegna innleiðingar jafnlaunavottunar og starfsmats hjá sveitarfélögum. Þessi tæki leiðrétta hins vegar ekki að óbreyttu launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði. Betur má því ef duga skal.

Ég vil minnast á það hér að nýafstaðinn heimsfaraldur varpaði skýru ljósi á mikilvægi og verðmæti kvennastarfa enda eru konur mikill meiri hluti starfsfólks í heilbrigðiskerfinu og í menntakerfinu. En er það eðlileg þróun að heilbrigðiskerfinu og skólakerfinu sé að miklum hluta haldið uppi af konum? Í því ljósi vil ég aðeins rifja upp hvernig launakjör kennara og kynjahlutfallið hefur breyst í gegnum tíðina. Fyrir þó nokkrum áratugum, í kringum 1960 til 1970, voru kennaralaun bundin við þingfararkaup. Þá var mikill meiri hluti starfandi kennara karlar. Þetta var afnumið. Hvað gerðist? Jú, hlutfall karla fór lækkandi og hlutfall kvenna fór hækkandi. Breyttist virðismat starfsins að einhverju leyti? Ég er ekki viss um það, það er verðmætara í dag ef eitthvað er.

Virðulegur forseti. Hvernig útskýrum við launamun fyrir börnunum okkar? Hvernig útskýrum við það fyrir stúlkunum okkar að karlmenn fái hærri laun fyrir sama starf? Það er flókið og það er ekki réttlætanlegt. Það er gott og mikilvægt að setja lög en árangurinn hefur því miður skilað sér allt of hægt. Við þurfum sem samfélag að (Forseti hringir.) brjóta þessa múra og við þurfum í samtalinu við börnin okkar, þegar við ræðum við þau, að ræða hvað það er sem þau langar að gera, að þau skoði þetta.