Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

Virðismat kvennastarfa.

[11:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil halda áfram þar sem hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skildi við varðandi verkfærin sem við höfum í þessari umræðu og til að takast á við þá þætti sem undirliggjandi eru. Eitt þeirra vil ég nefna sérstaklega, sem er jafnlaunavottunin sem innleidd var hér í námunda við árið 2017. Síðan var mismunandi eftir stærð fyrirtækja hvenær fyrirtæki og stofnanir þurftu að hafa lokið þeirri vinnu. Ég held að ég muni það rétt að frá og með 31. desember næstkomandi eigi öll fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn að hafa lokið þeirri innleiðingu. Þetta snýr að því sem ég kem stundum inn á, kannski í öðru samhengi, að við setjum orkuna í það sem skiptir máli, þar sem árangur næst. Eftir nokkra leit á vefnum hefur mér ekki tekist að finna neina greinargóða úttekt á þeim árangri sem talið er óhætt að færa rök fyrir að jafnlaunavottunarkerfið hafi skilað. Og bara af því að hæstv. forsætisráðherra situr í sínu sæti þá held ég að það væri áhugavert ef jafnréttismálaráðherra setti af stað vinnu þar sem reynt væri að komast til botns í því hver árangur af því regluverki hefur verið, því að það liggur fyrir að kostnaðurinn af þessu er umtalsverður og hann er áþreifanlegur fyrir fyrirtækin. En það skiptir máli þegar slíkt er lagt yfir efnahagslífið í heild sinni, a.m.k. fyrir fyrirtæki með 25 starfsmenn og fleiri, að við getum sýnt fram á að einhver árangur hafi náðst. Ég sá hér gamla frétt frá því u.þ.b. þeim tíma þegar lagaskyldan var að byrja. Þar var bara tiltölulega lítið fyrirtæki með heildarkostnað upp á 4 milljónir, sem er væntanlega orðinn töluvert hærri núna. Þannig að ég hvet hæstv. jafnréttisráðherra til að skoða þetta.