Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

Virðismat kvennastarfa.

[11:53]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þátttöku þingmanna í þessari umræðu og hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Það er gott að heyra að það eigi að fara í tilraunaverkefni með fjórum giska ólíkum opinberum stofnunum, en út úr því kemur vonandi niðurstaða sem við getum unnið með áfram. En hún verður ekki væntanleg fyrr en á næsta ári, ef ég hef skilið þetta rétt.

Það sem mig langar til að hnykkja á í lokin varðar tækin sem við höfum verið að nota. Starfsmatið hjá sveitarfélögunum hefur t.d. leitt til þess að þar er minnstur óleiðréttur launamunur hjá sveitarfélögunum. En það er alveg rétt sem hér hefur verið bent á að það er ekki sama hvernig það er gert og stigatalningin í starfsmatinu hentar stéttum mjög misjafnlega. Það getur verið innbyggð skekkja í tækjunum, eins og í starfsmatinu, og við vitum líka að jafnlaunavottunin hefur mikla ókosti. Hún fer ekki þvert á vinnumarkaðinn og ég tek undir spurningu hv. þm. Bergþórs Ólasonar um að það verði skoðað og árangurinn mældur.

Þriðja vaktin er auðvitað stórkostlegt hagsmunamál kvenna að því leyti að þær þurfa að losna við hana. Ég legg til að næsta kvennaverkfall verði á þriðju vaktinni og það standi í heilt ár og við leyfum bara liðinu að sjá um sig sjálft. En ég vara við hugmyndum um að einkarekstur, hvað þá einkavæðing, bæti hér úr. Allur einkarekstur sem fer fram í velferðarkerfinu er fjármagnaður beint úr ríkissjóði. Við verðum að sjá til þess að ríkið sinni því hlutverki sínu að halda úti mennta- og velferðarkerfi, heilbrigðiskerfi, af því að það er hlutverk ríkisins og verðmætamat starfanna sem þar fer fram þarf að vera þannig að konur og karlar sækist í þau og að það sé sanngjarnt og endurspegli virði starfanna.

Að síðustu þetta: Það þarf bara pólitíska forystu. Ný-Sjálendingar hafa sýnt okkur það og ég skora á hæstv. forsætisráðherra að taka hana.