Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

tæknifrjóvgun o.fl.

8. mál
[13:57]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hildi Sverrisdóttur fyrir þetta góða frumvarp. Það er allt rétt við þetta frumvarp og ég styð það heils hugar og skráði mig sem meðflutningsmann. Tvær af nánum vinkonum mínum hlutu þá náð að verða mæður 54 ára gamlar með atfylgi tæknifrjóvgunar, önnur fyrir 15 árum og hin fyrir 15 vikum og eru að líkindum í hópi elstu kvenna hvað þetta varðar, það er nokkur, skulum við segja, munur á körlum og konum í þessu samhengi, því miður. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé slíkt lykilmáli í lífi hvers einstaklings, rétturinn til að eignast barn og möguleikarnir á því, að við eigum að gera allt sem við getum til að stuðla að því að gera það sem auðveldast, ódýrast, fljótvirkast og styðja við af heilum hug.

En hitt málið sem ég vildi nefna í þessu samhengi er ógnvænleg þróun síðustu a.m.k. tveggja áratuga sem er ófrjósemi í heiminum, óútskýrð. Það eru getgátur af ýmsum toga; geislun, mataræði, mygla eða hvað sem það gæti verið. Ég er hræddur um að það sé ekki kannski varið nógu miklu fé í alþjóðlegu samhengi til að rannsaka hinar raunverulegu hindranir sem þarna eru. Ég get fagnað því úr eigin fjölskyldu að systir mín sáluga hafði fyrir læknamistök orðið að því er virtist ófrjó og þurfti að leita læknisaðstoðar í Bretlandi í þrígang áður en loksins tókst að frjóvga egg og það var mikil gæfa fyrir hana og alla fjölskylduna og mikil hamingja í okkar fjölskyldu er sú eina dóttir, 30 ára á þessu ári, 03.03, var rétt fyrir örfáum vikum að eignast sitt fyrsta barn, þökk sé tæknifrjóvgun fyrir 31 ári. Þannig að ég segi enn og aftur: Ég styð þetta mál heils hugar, geri allt til að tala það upp og óska hv. þingmanni til hamingju með að hafa sett það saman svo skýrt og vel sem raun ber vitni og óska þess af heilum hug að það megi hljóta farsællega og skjóta afgreiðslu í þinginu.