Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

skattalegir hvatar vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.

133. mál
[14:14]
Horfa

Flm. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna sem kom í lok hennar máls. Mér finnst í raun og veru tvennt ólíkt að móta heildstæða stefnu varðandi afreks- og keppnisíþróttafólk, hvernig við ætlum að hátta þeirri umgjörð, og svo þetta tiltekna mál, að fara strax í að framkvæma og búa til umgjörð fyrir bæði opinbera og almenna markaðinn um það hvernig við getum sniðið þessi mál þannig að fyrirtæki og stofnanir eftir atvikum fái í raun og veru þennan hvata til sín, að þau líti kannski enn frekar til þessa hóps fólks og fái það til starfa. Ég ítreka að mér finnst það, eins og kom reyndar fram í framsögu minni, mjög mikilvægt og brýnt að þessi hópur sé virkur þátttakandi í atvinnulífinu. Ég held að það sé mjög heilbrigt fyrir fyrirtæki og stofnanir og atvinnulífið í heild að hafa íþróttafólk innan sinna raða sem smitar svo út frá sér, eins og ég sagði áðan, með margvíslegum hætti inn á vinnustaði. Vissulega getur þetta mál og stefnan vel talað saman en ég tel mjög brýnt að þetta komi til framkvæmda strax.