Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

skattalegir hvatar vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.

133. mál
[14:20]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég ætla svo sem ekki að hafa þetta langt hjá mér hér, ég kom athugasemdum mínum og hugleiðingum ágætlega á framfæri í andsvörum við hv. framsögumann og fékk svör. Mig langar samt aðeins að hnykkja á því að það er kannski ástæða fyrir því að réttindastaða og fjárhagsstaða keppnis- og afreksíþróttafólks á Íslandi er jafn bágborin og raun ber vitni þrátt fyrir mikla velvild almennt, mikinn skilning á stöðunni og mikinn áhuga almennings og stjórnvalda á þessum sömu afreksíþróttum. Það hefur skort á heildstæða nálgun. Þegar afreksfólkið okkar er í sviðsljósinu — vegna tiltekinna kappleikja eða keppna á hvaða sviði íþrótta sem það er, ég tala nú ekki um þegar árangur næst, sem er býsna oft hjá fámennri þjóð — stíga ráðamenn fram, þá stígur alls konar fólk fram, og lofa hinu og þessu, af því að það er jú stór hluti af okkar góðu þjóðarsál að fylgjast með og hvetja og dásama og vera stolt af íþróttafólkinu okkar. En síðan verður oft minna um efndir og aftur, svo að ég vitni í orð langþreytts formanns stórrar íþróttahreyfingar: Sýnið nú íþróttahreyfingunni þá virðingu að standa einhvern tímann við eitthvað af því sem lofað er. Um það snýst þetta mál miklu frekar en það, eins og stundum er, að fyrst þurfi að selja hugmyndina og afla stuðnings. Hann er til staðar í orði, hann nær ekki að vera í verki. Auðvitað er það svo að eitthvað af þessu kostar peninga og eitthvað af þessu kostar vinnu o.s.frv. en þegar vilji er til er yfirleitt a.m.k. hægt að gera betur.

Nú liggur fyrir einróma samþykkt Alþingis frá því fyrir tveimur árum um að ráðherra íþróttamála skuli vera búinn að leggja fram heildstæða stefnu fyrir afreksfólk í íþróttum sem m.a. tekur til fjárhagslegs stuðnings en teiknar líka upp hvernig við eflum og hvetjum fólk í íþróttum, og þá á ég ekki bara við afreksíþróttirnar heldur grunninn sem eru almenningsíþróttirnar og börnin og ungmennin, hvernig við tengjum skólana og vinnustaði, eins og kemur fram í góðri tillögu hv. framsögumanns hér, hvernig allt þetta er unnið. Alþingi er búið að biðja um þetta. Þá finnst mér, og ég ætla bara að vera hreinskilin með það, það ekki bara óþarfi að koma fram með svona tillögu sem tekur til afmarkaðs hluta af þeirri stefnu, mér finnst það beinlínis geta skaðað vegna þess að þá erum við aftur komin niður í smáskammtalækningar, með fullri virðingu fyrir því hversu mikilvægt þetta mál er með skattahvatana, ef við ætlum einungis að fara í það og svo ætlum við einungis að gera eitthvað annað. Alþingi er búið að biðja um heildstæða stefnu um þessi mál.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég vildi bara koma þessu á framfæri og fá að brýna hv. framsögumann til dáða. Hann er þingmaður Framsóknarflokksins, þar sem eru tveir ráðherrar íþróttamála, annars vegar sá sem var ráðherra þegar Alþingi samþykkti tillöguna og fékk verkefnið til sín og hins vegar ráðherra íþróttamála núna, sem væntanlega er með það á sinni könnu að klára málið og skoða, vegna þess að stefnan var ekki lögð fram í vor eins og Alþingi fór fram á. Ég segi það einlæglega: Það er fljótlegra að setja þetta inn í stefnu heldur en að fara með nýja þingsályktunartillögu þingmanna alveg í gegn.

En bara svo að það liggi alveg skýrt fyrir: Ég óska þess einlæglega að þetta verði að veruleika. Ég myndi vilja sjá það inni í heildstæðri stefnu en við eigum það sameiginlegt að þetta vil ég sannarlega sjá gerast og þekki það á eigin skinni hversu slæmt það er ef maður lendir í því að það er ekki velvilji hjá viðkomandi vinnuveitanda og skóla. Málið styð ég en ég vildi bara að það lægi fyrir nákvæmlega hvernig staðan væri.