Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

efling félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins.

10. mál
[14:25]
Horfa

Flm. (Bjarni Jónsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Við þurfum að styrkja stöðu sjávarbyggðanna, tækifæri fólks til að leggja fyrir sig vistvænar krókaveiðar á grunnslóð í atvinnuskyni, nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar, sjávarauðlindina, að sú leið sé öllum opin, ekki síst í þágu smærri byggðanna sem hafa á undanförnum árum verið rúnar aflaheimildum sínum og lífsbjörg kynslóða færð á sífellt færri hendur á færri stöðum. Kvótakerfið er án byggðafestu þar sem menn hafa komist upp með að höndla með veiðiheimildir sem eign þeirra væri og án tillits til hagsmuna og réttinda einstakra byggðarlaga og samfélaga fólks sem hefur í kynslóðir byggt afkomu sína á því að sækja sjóinn og vinna úr og nýta það sem hafið gefur.

Ég mæli hér í dag fyrir tillögu til þingsályktunar um eflingu félagslega hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins, einu af forgangsmálum þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Í þessari þingsályktunartillögu er lagt til að stækka í áföngum félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins með það fyrir augum að hlutdeild þess verði 8,3% af heildarafla í stað 5,3% eins og er í dag. Þá er lagt til að endurskoðuð verði skipting aflamagns á milli aðgerða innan kerfisins sem og endurskoðun á hlutverki hverrar og einnar þeirra.

Virðulegi forseti. Félagslegar veiðar skipta sköpum fyrir byggðafestu í landinu. Það má ekki gleymast í umræðunni um sjávarútvegsmál hversu samofin greinin er sjálfsmynd þjóðarinnar. Hvert einasta sjávarpláss á sér ríka sögu vegna veiða og í mörgum tilfellum voru veiðar aflvaki byggðarinnar. Það má kalla þetta tilfinningasemi en í eðli sínu eru félagslegar veiðar jöfnunartæki og liður í því að treysta byggðajafnrétti og styrkja stöðu sjávarbyggðanna sem og réttlátari nýtingu sjávarauðlindanna um land allt.

Sjávarbyggðir þær sem verst urðu úti vegna framsals aflaheimilda hafa sumar gengið í endurnýjun lífdaga fyrir tilstilli félagslegra veiða. Þar hafa strandveiðar skipt sköpum. Þær hafa glætt lífi hafnir sem áður stóðu tómar og sjávarútvegur var á undanhaldi. Félagslegar veiðar styrkja atvinnulíf hvar sem þeirra nýtur við. Þær stuðla að aukinni fjárfestingu í sjávarútvegi, ekki síst þar sem aflaheimildum er ekki lengur til að skipta í minni og brothættari byggðum. Það er mat þess sem hér stendur að viðvarandi stækkun félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins til lengri tíma muni auka enn á þá fjárfestingu, auka fyrirsjáanleika í greininni og koma til móts við sveiflur vegna kvótaskerðinga sem koma öllu verr við smáútgerð. Þá eru ótalin áhrif félagslegra veiða, sér í lagi strandveiða, á nýliðun í sjávarútvegi og mikilvægi þeirra sem mótvægi við aukna fákeppni og samþjöppun í greininni.

Virðulegi forseti. Þegar lýtur að félagslega kerfinu er eðlilegt að staldra við og kanna hvort allar aðgerðir innan þess standi undir hlutverki sínu. Það er öllum til heilla að félagslegar veiðar skili sem farsælustum árangri. Þess vegna er lögð til endurskoðun á innbyrðis skiptingu aflamarks á milli aðgerða sem og endurskoðun hverrar aðgerðar fyrir sig.

Félagslegar veiðar skipta sköpum fyrir byggðafestu á Íslandi. Strandveiðar voru heimilaðar með lögum nr. 66 19. júní 2009. Það voru mikilvæg og farsæl tímamót 25. júní sama ár þegar þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, undirritaði fyrstu reglugerðina um strandveiðar við flotbryggjurnar neðan við gömlu verbúðirnar við Tryggvagötu. Hafandi tekið þátt í mótun hugmyndafræðinnar að baki strandveiðunum og komið að samningu frumvarpsins um veiðarnar á sínum tíma er sérstaklega ánægjulegt að standa nú á Alþingi og mæla fyrir tillögu um frekari eflingu strandveiða og að þær verði festar enn betur í sessi.

Við upphaf strandveiða var markmiðið m.a. að auka aðgengi að fiskveiðum í atvinnuskyni og opna á takmarkaðar veiðar þeirra sem ekki voru handhafar aflaheimilda. Veiðarnar voru sömuleiðis liður í aukinni atvinnustarfsemi á árunum eftir hrun. Veiðarnar voru lyftistöng fyrir atvinnulíf í smærri byggðum og á svæðum sem illa höfðu komið út úr samþjöppun aflaheimilda. Grunnhugmyndin fólst í að setja á fót frjálsar handfæraveiðar meðfram ströndinni. Þessi nýi flokkur veiða fékk síðan heitið „strandveiðar“ og var hugsaður sem frjálsar en ábyrgar og sjálfbærar veiðar sem myndu greiða fyrir nýliðun í sjávarútvegi og efla atvinnu og líf í sjávarbyggðum landsins. Þau markmið hafa að mörgu leyti gengið eftir og einn þýðingarmesti ávinningur strandveiðanna er sá að fleiri en handhafar aflamarks geta stundað veiðar í atvinnuskyni. Strandveiðar skipta nú sköpum fyrir fjölda fjölskyldna vítt og breitt um landið. Er um að ræða aðkomu 700 sjálfstæðra útgerða að handfæraveiðum, að ótöldum afleiddum störfum fiskverkenda, verkafólks, þjónustuaðila og heilu byggðanna.

Þá er oft litið fram hjá þeim hluta veiðanna sem snýr að umhverfinu en handfæraveiðar eru ekki ágengar, fara vel með hráefni sem og umhverfi sitt. Einnig er vert að horfa til tækifæra sem snúa að orkuskiptum í strandveiðum og smáskipaflotanum öllum við endurskoðun þá sem hér er lögð fram. Þá er vert að horfa til rafknúinna veiðarfæra og fleira sem styður markmið um vistvænar veiðar og kolefnishlutleysi.

Á nýliðnu strandveiðasumri var aflaverðmæti handfæraveiða langt á fimmta milljarð. Heildarþorskafli var 10.948 tonn og 1.472 tonn í ufsa. Fiskverð var í sögulegu hámarki og er því að baki farsælasta strandveiðivertíð frá upphafi þeirra. Langstærstur hluti strandveiðiaflans er seldur frjálsi sölu í gegnum uppboðskerfi fiskmarkaðanna sem styður við vinnslu sjávarafurða án tengsla við útgerð en er jafnframt liður í hærra meðalverði fisks. Tækifæri er til að gera enn betur við lestun á hráefni um borð í bátum. Fiskurinn í strandveiðibátunum er allur nýr við löndum. Það er eftirsóknarvert, ólíkt afla veiddum með sumum öðrum veiðiaðferðum, og ber því jafnan af þegar vel er gætt að meðhöndlun.

Af öðrum mikilvægum byggðaaðgerðum má nefna sérstaka byggðakvóta. Ég vil byrja á því að árétta mikilvægi þess að árangur byggðaaðgerða sé sýnilegur og mælanlegur. Með tilliti til sérstaka byggðakvótans mætti auka gagnsæi með reglubundinni skýrslugjöf. Í samningnum komi fram markmið úthlutunar sem og mælikvarðar, fyrirkomulag, umsýsla og eftirfylgni og fleira þar sem styður gagnsæi. Þá tel ég að horfa ætti til þess að koma á samræmdum reglum um úthlutun almenna byggðakvótans, hvort tilefni sé til þess að endurskoða dreifingu byggðakvótans og að honum verði beitt með ákveðnari hætti til smærri útgerða og skipa og hvort nýta megi hann til að styðja betur við félagslegar veiðar. Þá er fyrirsjáanlegt að aukinn hluti línuívilnunar verði ónýttur næstu ár vegna tækniframfara. Hefur hún dregist saman um tvo þriðju frá árinu 2016. Vert er að kanna hvort taka mætti upp með einhverjum hætti umhverfisívilnun með sömu formerkjum. Þá mætti til að mynda horfa til veiðarfæra sem hafa lítil áhrif á umhverfið, svo sem línuveiðar, gildruveiðar og/eða útgerð sem styðst við endurnýjanlega orkugjafa.

Loks vil ég segja um skel- og rækjubætur, sem komið var á til að minnka það áfall sem skel- og rækjuútgerðir urðu fyrir með áföllum stofnanna, að aflaheimildir þær sem gefnar voru eftir í skiptum fyrir heimildir til veiða þessara tegunda voru hluti af almenna fiskveiðistjórnarkerfinu, ekki því félagslega, og eðlilegt að uppgjör við handhafa þeirra bóta taki mið af þeim forsendum. Þá tel ég að komi til álita að horft verði til þess hvort veiðiheimildirnar hafi verið nýttar heima fyrir til hagsbóta fyrir þau byggðarlög sem fyrir áföllunum urðu eða leigðar í burtu.

Virðulegi forseti. Ástæða er til að endurskoða úthlutun og meðhöndlun aðgerða innan félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins, með tilliti til þess hvernig þær veiðiheimildir nýtast sem best smærri byggðarlögum sem þær eiga að þjóna og færa stærri hluta þeirra til smærri útgerða og inn í strandveiðikerfið. Þá þarf að koma í veg fyrir að stór hluti þeirra endi hjá stærstu útgerðarfélögum landsins sem nú þegar halda á stærstum hluta allra veiðiheimilda við Íslands strendur.

Að þessari þingsályktunartillögu standa ásamt mér þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, þau Steinunn Þóra Árnadóttir, Jódís Skúladóttir, Orri Páll Jóhannsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur. Vil ég að lokum leggja til að málinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar.