Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

efling félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins.

10. mál
[14:39]
Horfa

Flm. (Bjarni Jónsson) (Vg) (andsvar):

Takk fyrir andsvarið hv. þingmaður. Ég bara tek undir með hv. þingmanni. Við deilum því Vinstri græn og Píratar að vilja efla strandveiðar og efla krókaveiðar. Svo er spurning með hvaða hætti það verði best gert. Ég vænti þess að þið, eins og við, fagnið því ef stigin eru skref í þessa veru. Burtséð frá því hversu stór þau eru og hversu hratt þau eru stigin þá eru þau mikilvæg. Ég tel að innan kerfisins — ég ætla ekkert að fara út í einhverjar flóknar pælingar og þá líka um byggðakvóta og hitt og þetta annað sem er undir í þessu — sé hægt að stíga strax ákveðin skref og vonandi fleiri skref. Svo mun væntanlega þurfa lagabreytingar til að festa hlutina í sessi á einhverjum tímapunkti.

Ég held að það sé mjög mikilvægt og margir geti tekið undir það, m.a. meðþingmenn mínir hér, að það á að taka málið upp og fylgja því eftir og sýna einarðlega fyrir hvað við stöndum hér og í þessu tilviki við í þingflokki Vinstri hreyfingar - græns framboðs. Við stöndum með okkar stefnu og því sem við höfum talað fyrir alveg frá upphafi kerfisins, eins og ég kom að líka, hafandi tækifæri til að taka þátt í að móta það á sínum tíma.

Þetta er bara mitt hjartans mál líka, ég verð bara að viðurkenna það. Þess vegna finnst mér gríðarlega mikilvægt að geta fylgt því hér eftir og fengið meiri og betri umræðu um það, sem væntanlega skilar þá því að það verður enn þá meiri slagkraftur og eitthvað gerist — sem ég hef fulla trú á að verði.