Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana.

11. mál
[15:09]
Horfa

Flm. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum að miklu leyti sammála varðandi vaxtabótakerfið. Það er búið að stilla húsnæðiskerfinu hér á landi upp þannig að það er lífsnauðsynlegt að skuldsetja sig mikið til að komast af stað. Stóra grundvallarspurningin er hvernig húsnæðisstefna stjórnvalda hefur verið rekin. Hún hefur falist fyrst og fremst í því að losa sig einhvern veginn alveg af húsnæðismarkaðnum — ríkið var á sínum tíma með verkamannabústaðakerfi — og gera þetta bara algerlega frjálst. Það hefur gert það að verkum að þessi mikla skuldsetning og kapphlaup um eignir hefur þrýst verði ofar og ofar. Venjulegt fólk stendur frammi fyrir því að þurfa að skuldsetja sig allt of mikið og meira en er hóflegt og eðlilegt fyrir heimilin. Þess vegna erum við að einhverju leyti í þessari stöðu gagnvart vaxtabótunum. Það hefur líka verið stefna stjórnvalda að láta það kerfi í rauninni líða undir lok. Það hefur ekkert breyst í langan tíma. Þetta held ég að sé atriði sem þurfi strax að bregðast við núna af því að þau hafa beðið með að breyta húsnæðiskerfinu.

Varðandi skilgreiningu á hagkvæmu húsnæði er það auðvitað í fyrsta lagi aðkoma ríkisins til að mynda að uppbyggingu almenna íbúðakerfisins sem myndi veita ákveðið akkeri á markaðnum þegar kemur að leiguverði. Það smitar líka yfir á kaupverð vegna þess að leigumarkaður og kaupmarkaður eru tengdir. Ef þú ert að borga hagkvæmari leigu ertu með aukið svigrúm til að spara en þú ert líka í samkeppni sem leigusali við afborganir af kaupverði. Það er, held ég, álitlegasti kosturinn fyrir ríkið að byrja að koma með öflugum hætti inn á. Síðan er hægt að skoða sértækar lánveitingar, til að mynda til tekjulægstu hópanna eins og var gert á sínum tíma með Íbúðalánasjóði. Vandinn er að þau háu lán voru síðan veitt til allra Íslendinga sem sprengdu kerfið. Því er að miklu að huga í þessu samhengi og ég vona bara að það verði líflegar umræður um þingmálið í hv. nefnd.