Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana.

11. mál
[15:32]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim sem hér hafa lagt gott með sér. Hugurinn að baki þessari samstöðuhugmynd hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur er góður. En til að ná samstöðu þarf auðvitað samstöðu fleiri flokka en þeirra sem hér skipa minni hluta. Til að þetta megi verða þarf að ná samstöðu helst með öllum þingmönnum.

Ég held að flestir séu sammála um að staðan er grafalvarleg og margt í þessu gangverki okkar er því miður mjög ófullkomið. Margt af þeim lögum sem við höfum látið okkur hafa undanfarin ár eru neyðarlög, eins og verðtryggingin flokkast undir neyðarlög síns tíma.

Ég ætlaði að spyrja hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur einnar spurningar áður en hún lætur sig hverfa. Ég er ekki viss um að við eigum að vera að benda mikið á sökudólgana í þessu. Það eru svo margir sem kalla mætti til á sakamannabekk ef því væri að skipta. Áðan kom fram að um 5% húsnæðis er félagslegt húsnæði hér á Íslandi, ekki satt? Ég held að félagslegt húsnæði — jú víst mætti hafa stækkað þann prósentutöluhluta verulega en þetta er galskapur húsnæðismarkaðar sem geldur örmyntar, hárra vaxta, verðtryggingar og spíralvirkni.

Ég hefði m.a. viljað taka til umræðu fasteignagjöld sem eru einhvers konar óstöðvandi spírall. Fyrirtæki sem borgaði 1,5 millj. kr. í fasteignagjöld fyrir þremur árum borgar í dag 3 millj. kr. Það getur hent hvern sem er, launalítinn mann sem býr í einhverri götu, að allt í einu er selt fyrir einhverja góða upphæð í götunni og þá er honum refsað fyrir það. Fasteignagjöldin hækka á hann árið eftir af því að einhver seldi vel í götunni. Þá er allt gangvirkið komið af stað. Þannig að spíralkerfið í sambandi við fasteignagjöld bitnar á öllum, hvort sem það eru einstaklingar eða rekstraraðilar. Við skulum taka það inn í þessa mynd og reyna að fá heildarmyndina í þessu sem skýrasta og réttlátasta. Um leið og maður bendir fingri á einn þá bendir maður þremur fingrum á sjálfan sig. Ég held að við verðum að viðurkenna að 80% landsmanna sem búa hér á höfuðborgarsvæðinu eiga í mestum vandræðum með að finna sér húsnæði, hvort sem það er til kaups eða leigu, vegna þess að höfuðborgin sjálf hefur vanrækt algjörlega að bjóða hér nýjar lóðir til þróunar og fjölga valkostum í húsnæði. Það er stærsta ástæðan fyrir þessum stórfellda húsnæðisskorti sem drífur upp verðið. Um leið og fasteignagjöldin hækka þá verður leigusalinn að hækka leiguna. Þá er komið hærra verð á húsnæði og þá hækka fasteignagjöldin enn frekar. Mælikvarðinn þar er algalinn.

Við lifum í einhverju undarlegu hjóli sem mætti líkja við einhvers konar rafmagnsveituhjól þar sem hamstrarnir, almenningur sem annaðhvort á ekki húsnæði eða berst í bökkum við að borga af húsnæðinu, knýja áfram hjólið sem er í eigu fjármagnseigendanna og hjólið knýr áfram einhvern rafal sem spinnur upp verðmæti eigenda hjólsins. Þetta er myndin eins og ég sé hana. Við verðum að ná samstöðu um að taka á þessu sameiginlega með öllum þingmönnum því að ef ríkisstjórnin er ósátt við framsetningu eða ásakanir eða það að vera gerð ábyrg fyrir því öllu sem aflaga hefur farið á tímum stríðs og Covid þá verður engin samstaða. Ég held að við þurfum að nálgast þetta af auðmýkt.

Margt af því sem hér var sagt hefði alveg eins getað komið úr munni hv. þm. Ásdísar Lóu Þórsdóttur. Mér fannst á tímabili að ég væri að hlusta á hana. Alla vega er hugurinn sem að baki býr fyrst og fremst til að vernda hina viðkvæmustu í samfélaginu sem standa hér algerlega varnarlausir gegn 100.000 kallinum plús á mánuði sem hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson nefndi áðan. Þetta er því flókið mál og það er ekki svo gott að benda fingrum á veiru eða stríðsástand. Við verðum líka að viðurkenna að við sjálf erum — ja, maður eins og ég ólst upp í 120% verðbólguástandi og þar var bara frumskógarlögmál um að bjarga sér frá einum tíma til annars. Verðgildi hlutanna einhvern veginn brann upp.

Það er viðvarandi glannaskapur hér í fjármálum og okurtilhneiging á öllum vígstöðvum. Það er í mörgum tilfellum undir því yfirvarpi: Þetta er út af stríðinu, þetta er út af Covid. Stundum hefur það ekkert með það að gera. Það er bara verið að okra á okkur á öllum mögulegum vígstöðvum og það þenur þetta allt saman upp, þetta blessaða kerfi okkar.

Ég vil bara spyrja um tvennt. Það sem nefnt var með fjármagnstekjuskatt sem dulbúnar tekjur, hvað nákvæmlega er verið að vísa í? Erum við virkilega ekki að ná utan um skattheimtuna sökum fjármagnstekjuskattslaganna? Og hitt, hvort við getum ekki orðið ásátt um það að menn hafi hreinlega ekki séð fyrir að það sem hljómar of gott til að vera satt reynist yfirleitt vera of gott til að vera satt. Það reyndist með þessari ægilegu gyllitilboðahrinu Seðlabankans vera of gott til að vera satt að hægt væri að fá peninga svona ódýrt á Íslandi allt í einu. Það dreif allt gangverkið upp. Allir vildu endurfjármagna, allir vildu kaupa og það var bara ekkert framboð þannig að markaðurinn fór algerlega úr böndum. Ungt fólk á Íslandi í dag á í rauninni engra kosta völ, sé það ekki af einhverjum aðalsættum, annarra en að biðja pabba og mömmu að skrifa upp á fyrir sig og slá alla í kringum sig til lánsliðveislu.

Er það ekki bara rétt að við viðurkennum að hér sá enginn fyrir hvaða áhrif vaxtalækkunin hefði? Húsnæðismarkaðurinn með öllum þessum vöxtum, vaxtaverkjum, verðbólgu og hliðarverkunum eru búinn að koma okkur í þessa rosalega erfiðu stöðu sem er verið er að reyna að bregðast við hérna. En við skulum ekki benda á þessa bekki þegar kemur að húsnæðisvandanum. Það er næsti bær, ráðhúsið.