Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana.

11. mál
[15:41]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Komið var inn á það að áhrifin af þessari vaxtalækkun væru eitthvað sem enginn hefði getað séð fyrir eða eitthvað slíkt. Ég má til með að nefna að fyrsti flutningsmaður þessa máls, hv. þm. Kristrún Frostadóttir, var gargandi þetta á torgum mánuðum saman í miðjum heimsfaraldri, að fólk þyrfti aðeins að passa sig þegar kæmi að mjög skörpum vaxtalækkunum, að þær hefðu mjög örvandi áhrif á eignamarkaði sem gæti komið okkur í koll síðar. Mér fannst þetta svolítið skemmtilegt samhengi, að þetta væri eitthvað sem enginn hefði getað séð fyrir þegar mörgum þótti hv. þm. Kristrún Frostadóttir óttalegur fýlupoki þegar hún steig fram í fjölmiðlum trekk í trekk og benti á þetta. Hitt sem ég vildi gera athugasemdir við er það sem hér kom fram um húsnæðisvandann og Reykjavíkurborg. Ég held að það megi alveg halda því til haga að Reykjavíkurborg hefur verið í fararbroddi þegar kemur að félagslegri húsnæðisuppbyggingu á undanförnum árum. Staðan er þannig að 36% landsmanna búa í Reykjavík en meira en 70% íbúða í almenna íbúðakerfinu hafa risið í borginni síðan 2016, en svo hafa líka verið slegin met í úthlutun lóða almennt á þessu sama tímabili. Við sjáum að fjöldi útgefinna byggingarleyfa hefur verið langt umfram þær framkvæmdir sem raunverulega er ráðist í. Samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins í fyrra voru 900 fleiri íbúðir í byggingu í Reykjavík en í öllum öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu til samans. Mér finnst hv. þingmaður aðeins hafa verið að lepja upp áróður frá sérhagsmunaöflum, sem á ekki við rök að styðjast.