131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Þjónusta við yngri alzheimersjúklinga.

114. mál
[15:12]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að taka málið upp og þakka þátttökuna í umræðunum. Ég held að við séum öll sammála um að hér er um mjög aðkallandi mál að ræða. Ég er þeirrar skoðunar. Ég vil gera mitt til þess að þessu starfi verði hraðað. Ég vil eigi að síður fá upp á borðið tillögur um hvernig hinir færustu menn vilja haga þessari þjónustu til framtíðar. En ég tek fram varðandi núverandi fyrirkomulag við að sækja um undanþágu í ráðuneyti og það að öll mál komi upp á borð til ráðherra að mér finnst að það sé ekki fyrirkomulag sem geti verið til frambúðar. Við verðum því að finna úrræði sem henta þessu fólki. Ég vil gera mitt til þess að gengið verði í þá vinnu og að við tökum upp úrræði í framhaldi af því. Hins vegar höfum við reynt að greiða fyrir því með undanþágum meðan ástandið er eins og það er í dag að fólk fái pláss. Vonandi getum við gert það áfram. Ég tek undir það að ræða þarf framtíðarúrræði í þessu. Við höfum verið með þetta uppi á okkar borði í ráðuneytinu sem eitt af brýnum verkefnum sem þarf að leysa úr.