133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

möguleg leyniþjónustustarfsemi á vegum stjórnvalda.

[16:57]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir liggur, samkvæmt sagnfræðilegum rannsóknum, að kerfisbundið var fylgst með fólki með tilteknar pólitískar skoðanir, líklega næstum alla síðustu öld hér á landi. Það leiddi einnig af sér nokkuð sem kallað var í Vestur-Þýskalandi kaldastríðstímans „Berufsverbot“, það að menn voru útilokaðir frá ákveðnum störfum og ákveðnum framgangi auk annarra óþæginda sem slíku fylgdi.

Hæstv. dómsmálaráðherra talar um sagnfræðilegt úrlausnarefni. Ef mig misminnir ekki er þetta sami maðurinn og hefur staðið hér í pontu hins háa Alþingis margoft og beinlínis krafist þess að vinstri menn, að allir íslenskir vinstri menn, gerðu upp við fortíð sína, gerðu upp við kalda stríðið og gerðu upp við öll samskipti sín við Sovét, Austur-Þýskaland og þar fram eftir götunum.

Hingað kom reyndar í pontu hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og tók af honum ómakið og ef ég skildi hv. þingmann rétt skiptir það ekki máli hvað gerðist, hvort hér voru stundaðar kerfisbundnar njósnir og hleranir á fólki með tilteknar pólitískar skoðanir af því að Framsókn og Alþýðuflokkurinn hefðu fundið það upp. Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega? Geta þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki talað um það sem hér er á dagskrá. Er þeim það fyrirmunað eða er það vegna þess að það er svo óþægilegt fyrir þá vegna þess að fortíðin er svo óþægileg og hún er komin til að finna þá hér í dag á hinu háa Alþingi?

Hæstv. dómsmálaráðherra talaði í ræðu sinni um hópa sem vildu beita ofbeldi og bylta þjóðskipulaginu og nefndi sem dæmi NATO-fundinn 1968, utanríkisráðherrafund NATO 1968 á Íslandi. Það var fyrir mitt minni en ég hef séð sjónvarpsmyndir af þeim fundi og mótmælunum, friðsamlegum mótmælum sem þá fóru fram, en þá voru reyndar ungmenni dregin á brott af lögreglunni og allt í lagi með það, þeim varð varla meint af og hafa sýnt samfélagi sínu fullan sóma.

En er það þá þannig, frú forseti, að friðsamleg mótmæli túlkast sem grunur um saknæmt athæfi? Ég gat ekki skilið hæstv. ráðherra öðruvísi en að svo væri. Og enn er ósvarað spurningunni, frú forseti, enn um það hvort þessi starfsemi sé enn í gangi með einhverjum hætti. Eitt er þó víst að greinaskrif Þórs Whiteheads og öll sú umfjöllun sem hér hefur farið fram á undanförnum mánuðum og missirum hefur kallað fram, að mati hæstv. dómsmálaráðherra, hina brýnu nauðsyn þess að setja hér lög um öryggislögreglu (Forseti hringir.) og einhvers konar leyniþjónustu þó að það megi ekki kalla hana það lengur og (Forseti hringir.) hann kallar til vitnis sérfræðinga Evrópusambandsins.