133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

möguleg leyniþjónustustarfsemi á vegum stjórnvalda.

[17:09]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og þátttöku í henni.

Ég verð nú að segja að það var meiri reisn yfir talsmönnum Sjálfstæðisflokksins 1935 á Alþingi, þeim Ólafi Thors og Bjarna Benediktssyni, þegar þeir mótmæltu harðlega símahlerunum ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Alþýðuflokks í bílstjóraverkfallinu og töldu þær símahleranir óréttlætanlegar, það rof á friðhelgi einstaklinganna.

Nú kemur hér í ræðustól dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins sem enn, trúi ég, kennir sig við frelsi og vill standa vörð um réttindi einstaklinganna og það vottar ekki fyrir efasemdum, það örlaði aldrei á því að hæstv. dómsmálaráðherra teldi að þarna hefði kannski verið brotið með óréttmætum hætti á réttindum manna. Ræða hæstv. dómsmálaráðherra og hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar var ein samfelld málsvörn fyrir því, með kaldastríðsáróðri, að þetta hefði í raun og veru verið allt í lagi, þetta ætti sér bara allt saman eðlilegar útskýringar og að öðru leyti væri þetta svona sagnfræði sem ætti ekki að vera að tala mikið um.

Hæstv. dómsmálaráðherra reyndi líka að leggja að jöfnu lögmætar aðgerðir í nútímanum, t.d. á grundvelli vandaðrar löggjafar þegar verið er að kljást við fíkniefnasala, og það sem þarna gerðist. Er það virkilega svo að hæstv. dómsmálaráðherra leggi það að jöfnu að reyna að berjast gegn fíkniefnavánni í dag og harðsvíruðum glæpamönnum og mafíósum og að símar íslenskra alþingismanna hafi verið hleraðir aftur og aftur með vísan kannski til Gúttóslagsins 40 árum áður? Voru það rök fyrir því að hlera síma íslenskra alþingismanna 1963 og 1968? Er hæstv. dómsmálaráðherra alveg viss um út í hvað hann er að fara hér? Hefði nú ekki verið vissara fyrir hæstv. ráðherra að hafa a.m.k. einhverja fyrirvara á þessari málsvörn sinni, á þessari réttlætingu? Á hann kannski eftir að fara sömu leiðina og hinn norski kollegi hans varð að fara vegna símahlerunar- og njósnamálsins í því landi? (Gripið fram í.)

Hæstv. ráðherra svaraði engum spurningum sem fyrir hann voru bornar. Tvær þeirra eru þó um viðbrögð dómsmálaráðuneytisins í núinu, sú fyrsta og sú síðasta. Það var spurt: Hvers vegna hefur dómsmálaráðuneytið sjálft ekki reitt fram neinar upplýsingar um þetta? Það var spurt: Hefur dómsmálaráðuneytið leitt hugann því að opna einstaklingunum sem í hlut eiga eða aðstandendum þeirra sem látnir eru aðgang að þeirra persónulegu upplýsingum? Engin svör. Málinu er drepið á dreif. Það er reynt að sópa því undir teppið með kaldastríðsáróðri. Ég verð að kalla það aumkunarvert að dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins Björn Bjarnason skuli ekki hafa meira fram að færa hér til þessarar umræðu.

Að lokum um spurninguna sem líka er í núinu: Hvenær var þessu hætt eða stendur þetta enn yfir? Það athyglisverðasta að mínu mati í þessari umræðu var að dómsmálaráðherra vék sér undan því að svara. Hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason þorir ekki að svara, já eða nei, hvort þetta sé enn í gangi. Hann segir að erlendir fræðimenn hafi komið og skoðað löggjöf og þeir metið það svo að lögreglan hafi ekki heimildir til leyniþjónustustarfsemi og dragi af því þá ályktun að þar með sé hún ekki í gangi og ráðherra tekur undir þetta álit þeirra. Þetta mundi nú einhvern tíma hafa heitið fjallabaksleið.

Af hverju svarar hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason mér ekki beint? Er enn verið að njósna? Er kannski verið að njósna um mig, hæstv. dómsmálaráðherra? Hef ég sætt á mínum 24 ára stjórnmálaferli njósnum af þessu tagi eins og forverar mínir margir hverjir sem ég þekkti vel hafa (Forseti hringir.) greinilega gert? Nei, (Forseti hringir.) hæstv. dómsmálaráðherra, þú ert nú ekki sloppinn svona billega.

(Forseti (JóhS): Ég vil biðja hv. ræðumann að ávarpa dómsmálaráðherra rétt.)