135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:57]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Þetta hafa orðið ansi fjörlegar umræður í dag og farið eins og oft áður um víðan völl. En mér þykir afskaplega miður að mér tókst ekki í tæka tíð að leiðrétta prentvilluna um Gaddstaðaflatir. Nógu vel þekki ég þann stað til þess að vita hvernig á að stafsetja nafnið.

Mér finnst hins vegar að það þurfi afskaplega mikinn vilja til þess að misskilja skýringar í frumvarpinu með viðhaldsfjármununum sem eru hluti af mótvægisaðgerðunum, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson virtist gera, að telja að þessi texti væri ekki í samræmi við það sem áður hefur fram komið varðandi mótvægisaðgerðirnar. Ég held að það sé bara ekki hægt að skilja þennan texta þannig. Þetta er í fullu samræmi við það sem sagt hefur verið. Við höfum einbeitt okkur að þeim sveitarfélögum sem eru með yfir 10% af starfandi fólki við veiðar og vinnslu og það verður haldið áfram við það.

Síðan varðandi fyrrum varnarsvæðið og þá fjármuni sem þangað eiga að renna, þeir renna auðvitað til þess að fjármagna þá starfsemi, viðhald, breytingar, öryggisgæslu og þar fram eftir götunum. Það starf mun standa undir sér þannig að ég á ekki von á því að það sé raunverulega hægt að tala um að það séu einhverjar niðurgreiðslur á einu eða neinu.

Hv. þingmaður spurði um viðbótarlaun. Ég held að ég geti verið nokkuð sáttur við sjálfan mig hvað viðbótarlaunin varðar því að ég setti um þau reglur með reglugerð fyrr á árinu. Slíkt hafði ekki verið gert vegna þess að það var ósamkomulag milli ráðuneytisins og stéttarfélaganna um þetta málefni. Þó höfðu tilteknar stéttir fengið launahækkanir á þessum grundvelli hjá einstaka stofnunum. Það verður þó að taka fram að viðbótarlaun, hvort sem það er vegna þess að þau séu samningsbundin hjá þeim sem teljast til embættismanna eða vegna lagaákvæða hjá þeim sem ekki eru embættismenn, fara í gegnum stofnanirnar og gegnum stofnanasamningana og hvorki dómsmálaráðherra né aðrir ráðherrar gera um þau samninga. Síðan varðandi þá samninga sem gerðir hafa verið er gert ráð fyrir þeim í launa- og verðlagslið fjáraukalagafrumvarpsins.

Umsvif hins opinbera koma ekki fram í fjárlagafrumvarpinu og það er kannski svolítið erfitt að telja allar framkvæmdirnar hér við höfnina til umsvifa ríkisins ef þær tölur eru réttar sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fór með. Ég ætla svo sem ekkert að rengja það. Þá má gera ráð fyrir að hlutur ríkisins sé kannski þegar upp er staðið, eftir 35 ár eða hvað það nú var sem er samningstímabilið, svona á bilinu 10–15% af heildarupphæðinni.

Þá spyr hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hvenær hann megi vænta svars við fyrirspurn vegna Hvalfjarðarsölunnar. Ég geri ráð fyrir því að það verði vandalaust að svara því innan tilskilins tíma. Að lokum, frú forseti, þakka ég umræðuna og óska eftir góðu samstarfi við nefndina um afgreiðslu málsins hér eftir sem hingað til.