135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

brottfall vatnalaga.

8. mál
[19:50]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður lagði fram þá frómu ósk að sú tillaga sem flutt var hér fyrr í dag og varðar vatn og vatnalög væri ekki sýndarmennska af hálfu Samfylkingarinnar eða ríkisstjórnarinnar, eða eins og hann orðaði það: „Ég vona að sú vinna eigi ekki bara að vera að forminu heldur raunveruleg.“

Nú er það svo, herra forseti, að tillagan felur það í sér að allir þingflokkar eiga fulltrúa í þeirri nefnd sem ég mun skipa og þar með aðkomu að málinu. Þá fer það náttúrlega töluvert eftir sannfæringarkrafti fulltrúa þingflokkanna og þeim rökum sem þar verða flutt hvernig sú vinna verður. Viðfangsefni nefndarinnar er hins vegar alveg skýrt. Það er hið sama og kom fram í yfirlýsingum fyrrverandi iðnaðarráðherra.

Að öðru leyti, herra forseti, finnst mér mál hv. þm. Ögmundar Jónassonar vera nokkuð merkilegt. Ég skil hann svo að hann telji að kerfið sem þurfi að vera á auðlindinni sé eftirfarandi: Að eignarhaldið á henni sé alfarið í eigu samfélagsins, sömuleiðis að dreifingin til neytenda þurfi að minnsta kosti að vera að meiri hluta í eigu samfélagsins, eða 100% eins og hv. þingmaður sagði, en jafnframt með vísan til vatnslinda og þess ágæta viðskiptamanns sem hv. þingmaður nefndi í sinni ræðu þá sé í lagi að markaðurinn komi að því að vinna þessa auðlind svo fremi hann greiði gjald til eigendanna, þ.e. samfélagsins.

Í megindráttum er ég sammála þessu viðhorfi. Mig skiptir ekkert miklu máli hvort það er 100% eða meirihlutaeignarhald á dreifikerfinu. Af því að hv. þingmaður vísaði til ræðu minnar og yfirlýsingar um orkumálin þá er alveg ljóst að sú hugmynd mín um félagslega meirihlutaeign er tekin úr vatnsveitulögunum. Það er niðurstaða sem ég get sætt mig við svo fremi það sé félagsleg stjórn á þeirri starfsemi.