137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:10]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki kallað eftir því að menn fylgdu sérstaklega flokkslínum í þessu máli. Ég hef ekki vikið orði að því í dag. Ég gerði einfaldlega athugasemd við það að utanríkismálaráðherra legði fram þingmál þar sem gengið er út frá því að hann, sá sem leiðir viðræðurnar við Evrópusambandið, geti barist gegn niðurstöðunni. Eða hvað er annars átt við þegar sagt er í þessari þingsályktunartillögu að málsaðilar áskilji sér rétt til að berjast gegn niðurstöðunni? Hvaða málsaðila er eiginlega verið að tala um? Mér er algerlega fyrirmunað að skilja það, eins og ég vék að í mínu fyrra máli.

Ég áskil mér líka rétt, þrátt fyrir það sem ég hef sagt og skrifað, til að mótmæla því þegar menn koma með svo vanbúið mál, eins og það sem við erum að ræða í dag, til umræðu á þinginu. Þegar menn ætlast til þess að þingið taki ákvörðun á jafnveikum grunni og lagt er upp með áskil ég mér rétt til að mótmæla því.