137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega umræðu áðan, (Gripið fram í.) þ.e. í framsöguræðunni. En hins vegar vil ég í framhaldi af því, vegna þess að hv. þingmaður gerir sér greinilega grein fyrir þeim vanköntum sem eru á því að ganga til samningaviðræðna við Evrópusambandið, spyrja hv. þingmann að því hvort hann sé mér ekki sammála um að áður en menn hafa tekið afstöðu til þess sé skynsamlegra að vanda málið mjög vel. Afgreiða það ekki í flýti heldur setja niður fyrir sér með vönduðum hætti greinargerð um mikilvægustu hagsmunina þannig að við getum áttað okkur á því áður en við tökum afstöðu til þess hvort sækja eigi um, hver helstu álitamálin séu. Ekki bara í tveimur, þremur, fjórum, fimm setningum eins og gert er í núverandi þingsályktunartillögu, heldur með vönduðum hætti þannig að við getum séð málið betur fyrir okkur.