137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:44]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að ákveði Alþingi að farið verði í viðræður við Evrópusambandið sé mikilvægt að við vitum og gerum okkur glögga grein fyrir því um hvað við ætlum að ræða við Evrópusambandið. (Gripið fram í.) Nei, áður en menn fara í viðræður við Evrópusambandið þurfa þeir að sjálfsögðu að setja það niður fyrir sér hver helstu markmiðin eru, hverjir helstu hagsmunir Íslendinga eru. Í þeirri þingsályktunartillögu sem ríkisstjórnin hefur lagt fram eru tíunduð helstu sjónarmið og helstu grundvallarhagsmunir sem ríkisstjórnin telur að þurfi að hafa að leiðarljósi. Þar kemur jafnframt fram að hafa eigi víðtækt samráð við hagsmunaaðila og á Alþingi um mótun samningsmarkmiðanna. Ég tel að vinna eigi málið á þeim grunni sem þar er lagt upp með.

Ég fæ ekki séð að í tillögu stjórnarandstöðuflokkanna tveggja sé í grundvallaratriðum verið að leggja upp með annað vinnulag. Það er að einhverju leyti frábrugðið en ég tel alls ekki útilokað að þau sjónarmið sem hér koma fram (Forseti hringir.) í þessum tveimur þingmálum séu samrýmanleg.