137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:16]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fór hér yfir þetta mál og lýsti sinni afstöðu til grundvallarþátta í málinu. Hún sagði líka að tillagan snerist um það eitt að stjórnin héldi velli. Að sjálfsögðu snýst þessi tillaga ekki um það og það veit hv. þingmaður.

Hún sagði líka: „Þingið er upp á punt og það á ekkert að gera nema að samþykkja tillöguna.“ Þetta er líka rangt. Við höfum farið yfir það hér hæstv. utanríkisráðherra og ég sem formaður utanríkismálanefndar að við leggjum kapp á að það fari fram vönduð og yfirveguð umræða um málið á vettvangi utanríkismálanefndar og ég hlakka til að ræða við hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þar um þessi mál því væntanlega fer þingsályktunartillaga stjórnarandstöðuflokkanna tveggja þangað líka.

Ég hef sagt að sá tími eigi að vera liðinn að þingið sé bara stimpilpúði fyrir framkvæmdarvaldið eins og það hefur verið hér um allt of langan tíma og þess vegna hafi þingið hlutverki að gegna í þessu samhengi. Ég hef einmitt boðið upp á það í samtölum við forustumenn stjórnarandstöðuflokkana að reyna að ná einhvers konar samkomulagi eða samstöðu um það hvernig málið verður unnið í þinginu.

Ég tel að það sé til marks um að fullur vilji sé til þess að ná góðri samstöðu jafnvel þó að skoðanir kunni að vera skiptar á milli einstakra flokka um efnisatriði málsins. Þá er af minni hálfu fullur vilji til þess að samstaða geti tekist um málsmeðferðina og hvernig við förum í það.

Vill hv. þingmaður ekki leita eftir viðhorfum hagsmunasamtaka, félagasamtaka til málsins? Eiga þau ekki að fá tækifæri til þess að koma á fund utanríkismálanefndar og lýsa sínum viðhorfum, hvernig þau vilji koma að málinu og hvernig þau vilji að það verði unnið og hvaða samráð eigi að hafa við þau? (Forseti hringir.) Allt þetta tel ég að eigi að ræða á vettvangi utanríkismálanefndar og þingmaðurinn getur að sjálfsögðu haft áhrif á málið með vinnu á vettvangi (Forseti hringir.) nefndarinnar.