137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:54]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Rödd okkar skiptir miklu máli og hún skiptir máli m.a. vegna þess að í ráðherraráði Evrópusambandsins, þegar ráðherrar einstakra málaflokka koma saman, situr einn ráðherra frá hverju ríki en ekki í samræmi við íbúafjölda ríkjanna. Ég hygg að 85% ákvarðana í ráðherraráðinu séu teknin í „consensus“ eða sem sagt án þess að atkvæðagreiðsla fari fram samhljóða. Það ríki sem oftast er ofurliði borið með atkvæðagreiðslu eða öðru við slík tækifæri er stærsta ríkið, Þýskaland. Og bara til gamans má benda á að í stjórn Evrópska seðlabankans þar sem peningastefna Evrópusambandsins er mótuð fengi Ísland eitt sæti eða jafnmörg og önnur ríki, t.d. Þýskaland. Þannig að þegar til á að taka hafa ríki bæði afl og getu til þess að koma skoðunum sínum á framfæri, hafa áhrif á ákvarðanir og hafa áhrif á önnur ríki í þeim málum a.m.k. sem mestu varða fyrir hagsmuni hverrar þjóðar. Það er ekkert sem bendir til þess hvorki í þessu samstarfi né í öðru samstarfi sem Íslendingar eru í á alþjóðlegum vettvangi að þar neyti menn aflsmunar vegna þess að Íslendingar séu svo fáir.