138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

ummæli seðlabankastjóra um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[10:35]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að þetta mál varðandi Icesave sé tekið hér upp aftur og aftur vegna þess að það er auðvitað mjög brýnt að fara að fá lyktir í það.

Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns hefur það komið fram, sem ég er auðvitað afskaplega óánægð með eins og margir aðrir, að menn tengja saman Icesave-niðurstöðuna og endurskoðunaráætlun AGS. Það er auðvitað alveg óþolandi að það sé gert. Í upphafi, þegar ég spurði menn frá AGS þegar þeir komu hingað hvort þetta tvennt tengdist eitthvað voru svörin ævinlega þau að það mundi a.m.k. ekki greiða fyrir málinu meðan ekki væri komin lausn í Icesave-málið. En svo er þetta alltaf að skýrast betur og betur, það eru tengingar þarna á milli og Norðurlandalánin eru t.d. algerlega tengd því að við fáum endurskoðun á áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, það er alveg ljóst. Komið hefur fram andstaða Breta og Hollendinga við að afgreiða endurskoðaða áætlun fyrr en komin er niðurstaða í Icesave.

Varðandi aðrar þjóðir sem eiga aðild þarna að hef ég ekki upplifað það með þeim hætti sem hv. þingmaður og hv. seðlabankastjóri lýsa, að það sé almenn andstaða við það meðal allra þjóðanna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að við fáum þessa endurskoðun. En ég vona að málið farið að skýrast og ég tel að ef við fáum niðurstöðu í þessu máli á næstu dögum sem við teljum að við getum lagt fyrir þingið er von mín sú að við getum fengið endurskoðun hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, jafnvel þótt þingið sé ekki búið að afgreiða málið, sem ég tel mjög mikils virði.