138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

samningsmarkmið Íslands fyrir loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn.

[13:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, þingmanninum Illuga Gunnarssyni, kærlega fyrir orð hans hér. Við deilum áhuga á þessu máli, ég og þingmaðurinn, en það er ekki hægt að segja það um hæstv. umhverfisráðherra því að hún er okkur algjörlega ósammála.

Vissulega er íslenska ákvæðið undanþága, en í málflutningi mínum síðan ég kom inn á þing sækist ég eftir því að hæstv. ríkisstjórn breyti þessari undanþágu í stöðugar heimildir þannig að þær verði jafnmetnar og þær heimildir sem við höfum eftir mengunarreynslu. Við erum að tala um að það skiptir máli. Íslenska ákvæðið er 75% af öllum losunarheimildum sem Íslendingar hafa. Ég minni á það að fyrrverandi umhverfisráðherra, þingmaður Framsóknarflokksins, Siv Friðleifsdóttir, var umhverfisráðherra þegar þetta ákvæði kom inn. Framsóknarflokkurinn er umhverfisflokkur og úr því að hæstv. ráðherra gerir grín að því að sjálfstæðismenn kalli sig hægri græna erum við framsóknarmenn miðjugræn og við erum síst verri en vinstri græn, svo það sé á hreinu, enda (Gripið fram í.) er þetta ekki einkamál vinstri grænna.

Hér hefur mikið verið rætt um skilningsleysi stjórnarandstöðunnar, að við misskiljum, snúum út úr og annað. Það kom fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur t.d. í umræðunni í gær að svör umhverfisráðuneytisins við ESB-listanum langa væru ekkert annað en tvískinnungur því að í svörum við svipuðum spurningum kæmi fram „já, við ætlum að sækja um“ og „nei, við ætlum ekki að fylgja þessu eftir“. Ég held að hæstv. umhverfisráðherra verði aðeins að fara að taka ákvörðun um hvaða stefnu ríkisstjórnin ætlar að taka í þessu máli til að ekki þurfi að koma til þrisvar í sömu vikunni að við ræðum hér (Forseti hringir.) loftslagsheimildir Íslands og þá ósk stjórnarandstöðunnar að hagsmuna Íslands verði gætt (Forseti hringir.) á alþjóðavettvangi í þessum málum á Kaupmannahafnarráðstefnunni.