138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[17:37]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessar tillögur verða væntanlega vegnar og metnar af þar til bærum aðilum þegar kemur að því að þær fara til umræðu í þeirri nefnd sem þær eiga að fara til. Það verður þá að skoða rök með og á móti. Hv. þingmaður leggur fram sín rök. Við sjálfstæðismenn höfum önnur rök að baki þeim tillögum sem við leggjum hér fram. Við teljum að þetta sé framkvæmanlegt og sé alls ekki undir nokkrum kringumstæðum — og ég ítreka það, frú forseti — þessi kerfisbreyting á lífeyrissjóðum, inngreiðslur í stað útgreiðslna, er ekki á nokkurn hátt aðför að launafólki í landinu. Þetta er leið til þess að koma fjármagni inn í hagkerfið til þess að efla atvinnulífið, auka tekjur og fara hraðar út úr þeim vanda sem við blasir.