139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[14:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég er á svipuðum slóðum og þeir hv. þingmenn sem hér hafa spurt hæstv. forsætisráðherra og er það ekki skrýtið miðað við ástand mála. Ég held að það hafi verið í lok mars sem hæstv. forsætisráðherra talaði um það á blaðamannafundi að öllum spurningum varðandi heimilin og skuldamál þeirra væri svarað og frekari aðgerða ekki þörf. Ég vildi því spyrja hæstv. forsætisráðherra, vegna þess að sem betur fer er búið að endurskoða þá afstöðu og er verið að vinna í þessu núna, hvað hæstv. ráðherra telur að vandinn sé mikill að umfangi og þá er ég að vísa í fjölda heimila og á hverju það sé byggt. Sömuleiðis vil ég, vegna þess að hér hefur verið nokkur umræða um að þetta hafi verið í hægagangi, vísa í grein sem formaður Lögmannafélagsins skrifaði í Pressunni í gær en þar vekur lögmaðurinn athygli á eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ríkissjóður hefur engan áhuga á því að afskrifa ótryggðar skattkröfur eða aðrar opinberar kröfur, þrátt fyrir að þær mundu augljóslega falla niður við gjaldþrot. Slíkar kröfur hafa áhrif á greiðslugetu einstaklinga og möguleika þeirra til að eignast íbúðarhúsnæði, auk þess sem ríkissjóður ætlast til þess að á sama tíma og fjármálafyrirtækin eru að afskrifa veðtryggðar kröfur umfram markaðsverð eigna þá fái ríkissjóður ótryggðar skattkröfur greiddar. Til viðbótar þessu gerir ríkissjóður jafnvel ráð fyrir því að geta skattlagt niðurfærsluna að auki.

Þessi afstaða ríkisvaldsins kemur í raun í veg fyrir að stór hópur fólks geti nýtt sér skuldaaðlögun fjármálafyrirtækjanna. Hvernig getur ríkisvaldið ætlast til þess að aðrir kröfuhafar, jafnvel þeir sem eiga veðtryggðar kröfur, felli þær niður á sama tíma og ríkissjóður fái kröfur sínar greiddar? Ætla stjórnvöld virkilega að koma í veg fyrir greiðsluaðlögun einstaklinga vegna skattkrafna sem augljóslega eru tapaðar og jafnvel búa til nýjar í kjölfar greiðsluaðlögunar?“

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvert sé viðhorf hæstv. ráðherra gagnvart þessum sjónarmiðum og hvort þetta sé eitthvað sem er til skoðunar núna.