140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:14]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Fyrst varðandi upplýsingagjöfina og hvort þetta sé tilraun ríkisstjórnarinnar til að fegra ástandið, að sumu leyti getur það verið þannig. Mér finnst ekkert óeðlilegt við það að hvort heldur ríkisstjórn eða stjórnarandstaða setji sér ágætlega háleit markmið en við verðum þá líka að vera menn til að viðurkenna þegar okkur ber af leið og við náum þeim ekki. Það er kannski sú tregða hjá ríkisstjórninni að viðurkenna að hún hafi kannski ekki náð ýtrustu markmiðum og gefi heldur þá mynd að þetta sé alltaf annaðhvort í vasa eða handan við hornið. Það veldur því að menn hafa ekki nægilegt traust til þess sem verið er að setja fram.

Varðandi afstöðu hv. þingmanns til Ríkisendurskoðunar þá vil ég undirstrika að ég tel það ekki eðlilega stjórnsýslu að leyna upplýsingum. Mig minnir að í þessu bréfi frá Ríkisendurskoðun hafi komið fram þær skýringar að þarna hafi verið um ákveðinn misskilning að ræða í upplýsingagjöf. Þeir hafi talið að fjármálaráðuneytið mundi koma ákveðnum upplýsingum á framfæri, (Forseti hringir.) þannig að allir njóti sannmælis í þessum efnum. (Forseti hringir.) Ég tel ekki að um sé að ræða ásetning hjá ríkisendurskoðanda að leyna okkur upplýsingum.