140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[17:44]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég held að það sé ekki nokkur spurning að það sé þannig í pottinn búið að eftir því sem skattkerfi eru flóknari, því erfiðara er fyrir fólk að vinna innan þeirra. Það er einn hópur sem gjarnan græðir á því að hafa flókin skattkerfi þar sem eru margar undanþágur og mikið flækjustig, þeir sem hafa mesta fjármuni á milli handanna og hafa tækifæri til að ráða til sín klóka lögfræðinga og endurskoðendur til að hjálpa sér við að komast undan skattgreiðslum. Fyrir venjulega launamenn, hvort sem er á almenna markaðnum eða hjá hinu opinbera, er slíkt ógerningur. Þess vegna skiptir máli að hafa skattkerfið sem einfaldast og reyna að hafa skattprósentuna sem lægsta.

Blessun þessarar þjóðar er sú að þrátt fyrir þau áföll sem við höfum orðið fyrir búum við við það að hér eru það miklar auðlindir frá náttúrunnar hendi að það eru stórkostleg tækifæri til fjárfestinga og auðmyndunar. Ef við höfum rétta hvata þannig að fólk mennti sig og sé tilbúið að leggja eitthvað á sig er ekki nokkur spurning í mínum huga að við Íslendingar munum snúa þessari stöðu mjög hratt við. Ef nálgunin er hins vegar sú að segja að það sé aldrei tækifæri til að lækka skattana, við þorum ekki að gera það, við þurfum alltaf einmitt frekar að hækka þá, erum við í vondum málum. Menn virðast vera óhræddir við að hækka þá. Menn tala stundum eins og að það sé engin hætta fólgin í því að hækka skattana. Þá er rétt að minna á að nú þegar eru skattar miðað við ríki OECD hæstir hér á þessu landi þegar tekið er tillit til greiðslna í lífeyrissjóði. Það skiptir verulega miklu máli, (Forseti hringir.) frú forseti.