141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

hækkun á virðisaukaskatti í ferðaþjónustu.

[15:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Hjá þeim þjóðum sem hv. þingmaður nefnir í inngangi sínum að fyrirspurninni er ferðaþjónustan með um það bil 3% vægi af landsframleiðslunni en á Íslandi var hlutur ferðaþjónustunnar um 5,9% af vergri landsframleiðslu árið 2009 og hækkar enn. Í samanburði er fróðlegt að bera saman vægi fiskvinnslu sem er 4,3% og vægi fiskveiða sem er 5,8%. Af þessum tölum má sjá að hlutur ferðaþjónustu í ríkisbúskapnum er hærri hér en í flestum nágrannalöndum. Þar sem aðrar þjóðir eru að lækka skattinn til að gefa greininni einhverjar ívilnanir svo að hún geti vaxið tekur hún miklu stærri hlut af landsframleiðslu okkar. Það er eðlilegt þegar svo mikill vöxtur er í ferðaþjónustu eins og hjá okkur að við stöldrum við.

Árið 1980 komu 65 þúsund erlendir ferðamenn til landsins. Það sem af er árinu 2012 eru þeir orðnir 650 þúsund. Þarna er mikill vöxtur og hann hefur verið jafn undanfarin 50 ár, um það bil 7,7% á ári. Í fyrra var hann reyndar yfir 15% og í ár er hann kominn yfir 16%. Ef við höldum að þessi tvö ár séu sveifla upp á við og hann verði áfram 7,7% þá verða erlendir ferðamenn 1 milljón á árinu 2018. En (Forseti hringir.) með þeim aðgerðum sem hækkun á virðisaukaskatti felur í sér dregst það að erlendir ferðamenn verði 1 milljón talsins á Íslandi til (Forseti hringir.) 2019, það dregst um eitt ár.