141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

staða mála á Landspítalanum.

[15:59]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Það er svolítið lýsandi fyrir afstöðu stjórnarflokkanna í þessu máli að hér stóð áðan formaður fjárlaganefndar og talaði um að yfir þessi mál yrði farið ítarlega í fjárlaganefnd við fjárlagagerðina og hverfur svo úr salnum og hlustar ekki á umræðuna um Landspítalann. Það er dapurlegt að verða vitni að þessu.

Hér hafa menn staðið og sagt: Það þarf að gera áætlun til langs tíma. Það hafa alltaf verið til áætlanir til tækjakaupa á Landspítalanum og alls staðar í heilbrigðiskerfinu. Þær hafa kannski ekki verið til mjög langs tíma en þær hafa alltaf verið til. Það hefur alltaf verið vitað hvaða tæki vantaði á hvern spítala. Það er bara undansláttur og flótti þegar menn segja að það verði ekkert gert í málunum fyrr en þessar áætlanir liggi fyrir. Við höfum ekki langan tíma. Ástandið er nú þegar mjög alvarlegt.

Núverandi stjórnvöld verða að sýna ábyrgð og taka af skarið og breyta forgangsröðuninni í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi en koma sér ekki alltaf undan ákvörðunum með vísan í fortíðina eða einhverjar heildaráætlanir. Slíkt er einfaldlega flótti frá ákvarðanatöku.

Svo kemur fólk hingað upp og segir að sjálfstæðismenn séu óheiðarlegir í málflutningi vegna þess að þeir hafi skorið niður til tækjakaupa árin 2002–2007 og heimti nú eitthvað annað. Búast menn við einhverju öðru úr þeirri átt? spyr ég bara. En þetta snýst ekki um það, hæstv. forseti, þetta snýst um að núverandi stjórnvöld bregðist við vandanum og lagi hann og hafi kjark til þess að forgangsraða heilbrigðiskerfinu hér á landi fram fyrir fjármagnseigendur. 90 milljarðar á fjárlögum í vaxtagreiðslur til fjármagnseigenda er óásættanlegt þegar ekki er til fyrir teipi til að líma saman tækin á Landspítalanum.