141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

flutningur málaflokks fatlaðs fólks.

146. mál
[17:10]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa tjáð sig um að mikilvægt skref hafi verið að færa málefni fatlaðs fólks til sveitarfélaganna. Í heildina hefur það gengið sérlega vel og nýst vel í samþættingu við félagsþjónustuna. Það var líka mjög ánægjulegt við yfirfærsluna og útfærsluna á þeim lagafrumvörpum að Alþingi bætti um betur, gerði ýmislegt. Við tókum ákveðin skref eins og varðandi réttindagæslu og notendastýrða persónulega aðstoð, hluti sem verður spennandi að fylgjast með hvernig nýtast í tengslum við þessa yfirfærslu.

Það er líka rétt sem hér hefur komið fram að mikilvægt er að fara vel yfir reynsluna. Þegar menn færðu grunnskólana á sínum tíma voru ákveðin sárindi á eftir um að ekki hefðu fylgt nægir peningar og þess vegna var þetta öryggisákvæði sett með þriggja ára reynslu og síðan uppgjöri 2014.

Þegar spurt er um aðra málaflokka tek ég heils hugar undir með hv. þingmanni um að það að fela sveitarfélögum og sveitarstjórnarstiginu verkefni er ágæt byggðaaðgerð því að þá er starfsmannahaldið í kringum það í þeirra höndum, hvernig þjónustan er veitt og hversu umfangsmikil hún er o.s.frv. miðað við þær tekjur sem þau hafa. Horf er til málefna aldraðra og er vinna í fullum gangi og koma margir hópar þar að undirbúningi. Þó kom strax fram ósk um að við gæfum okkur betri tíma en upphaflega var áætlað, þ.e. að reyna að ná þessu á næsta ári. Nú er talað um 1. janúar 2014 en spurning hvort það næst því að það hafa líka komið upp þau sjónarmið, sérstaklega frá sveitarfélögunum, að við ættum að bíða uppgjörsins frá málefnum fatlaðs fólks áður en við færðum málaflokkinn endanlega yfir.

Líka hefur komið fram í sambandi við yfirfærslu á málefnum aldraðra að það er ekki alveg einfalt varðandi ákveðnar stofnanir úti á landi sem er einmitt heilsugæsla, öldrunarstofnanir og jafnvel sjúkrahúsþjónusta hvernig menn skilja þetta að. Þess vegna gæti þurft að hafa þetta valkvætt með einhverjum hætti þannig að auðvelt yrði að færa málaflokka yfir á stóru kaupstaðina á Reykjavíkursvæðinu en á sama tíma gæti yfirfærsla orðið erfiðari úti á landi. (Forseti hringir.) Þessi vinna er í fullum gangi í samstarfi allra aðila og ég vona að hún leysist farsællega innan tveggja ára.