143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

lagaumhverfi náttúruverndar.

[16:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Það sem ég tel að upp úr standi, og ég kalla eftir því að hæstv. ráðherra svari því í seinna innleggi sínu, er auðvitað af hverju, í ljósi þess að gildistökutími nýrra laga er 1. apríl 2014, ekki er þá farin sú leið að skoða þær greinar sem ástæða væri til að breyta. Hæstv. ráðherra talaði um að þarna væru einhverjir hnútar sem þyrfti að greiða úr. Af hverju er þá ekki nýttur sá tími sem er til stefnu til að leggja fram þær breytingar? Hvað stendur í vegi fyrir því fremur en að fara í þetta afturkall á lögum? Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra varð mjög tíðrætt um almenna og víðtæka sátt. Ég taldi að minnsta kosti tíu sættir í máli hæstv. ráðherra. Þá vil ég líka spyrja hæstv. ráðherra, fyrir utan þessa fyrri spurningu, hvort hann telji það vænlegt til víðtækrar sáttar að fara í að afturkalla lög þegar við sem hér erum vitum að ef við viljum tryggja pólitískan stöðugleika sem framsóknarmönnum varð tíðrætt um á síðasta kjörtímabili dugir ekki að standa í svona kollsteypustjórnmálum.

Ég get sagt sjálf að ég hef verið ósammála ýmsum lögum sem forverar mínir settu og heilmikið ósætti hafði verið um en ég gekk ekki fram og afturkallaði þau. Ég setti kannski vinnu í að skoða (Gripið fram í.) einstakar greinar eða það sem sátt var um, kanna hvernig hægt væri að bæta sátt. Mér finnst það vænlegri leið til að tryggja pólitískan stöðugleika sem mörgum hefur nú þótt eftirsóknarverður, að ástunda ekki svona kollsteypustjórnmál heldur reyna að vinna í því og greina þá það sem út af stendur. Ég veit að við munum fá tækifæri til að greina það mjög nákvæmlega. Þegar við ræðum afturkallsfrumvarpið munum við væntanlega fá nákvæmar skýringar á því hvaða atriði standa út af og þá getur það hugsanlega orðið verkefni hv. umhverfis- og samgöngunefndar að benda á einfaldari leiðir í þeim efnum en hreint afturkall.