144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

stefnumótun í heilsugæslu.

[12:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Á næstu árum mun kostnaður við heilbrigðisþjónustu aukast mjög mikið á Íslandi. Það er staðreynd sem við fáum ekki breytt. Það kemur til vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar og vegna ýmissa lífsstílstengdra sjúkdóma. Við þurfum því að vera sammála um að hlutfall útgjalda til heilbrigðisþjónustu af vergri landsframleiðslu aukist á komandi árum og finna leiðir til þess að nýta þá fjármuni sem best.

Leiðin til þess er öflug heilsugæsla, öflug heimahjúkrun og þjónustustýring. Til að geta komið á almennilegri þjónustustýringu sem fólk sættir sig við þurfum við mjög öfluga heilsugæslu. Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu er mikilvægasta stofnunin þegar að þessu kemur, ekki af því að hún sé merkilegri en heilsugæslan úti um allt land, því að allir landsmenn eiga að hafa aðgengi að mjög góðri heilsugæslu, en hún er leiðandi sem stóri aðilinn á þessu sviði, er leiðandi og styrkjandi fyrir alla heilsugæslu í landinu. Þar verður að gefa svigrúm til þróunar til þess að byggja upp öflugri, fjölþættari þjónustu, ekki bara hvað varðar líkamlega kvilla heldur andlega kvilla og lýðheilsutengd málefni þannig að hún geti orðið stoð og stytta við aðra heilsugæslu í landinu.