144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[12:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek einfaldlega undir það með hv. þingmanni að það er full ástæða til að gera allar þær breytingar til bóta á þessu frumvarpi sem mögulegt er að gera í meðförum nefndarinnar. Ég held líka að þegar menn skoða þær mörgu einskiptisaðgerðir eða aðgerðir sem fela ekki í sér raunverulegan sparnað eins og aðgerðin gagnvart atvinnulausum sem er bara ýtt yfir á sveit og þegar menn skoða það sem menn hafa farið í í kringum Seðlabankann og ýmsa aðra hluti sé ástæða til að hafa áhyggjur af umfangi svona einskiptisaðgerða og reddinga í fjárlagafrumvarpinu í ár og eins í fyrra og að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af því að það sé ofmat af hálfu hæstv. fjármálaráðherra og kannski fullmikil bjartsýni að við séum komin algerlega fyrir vind og að það sé skynsamlegt að gera eins og ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið að gera, bæði í þessum fjárlögum og hinum síðustu, að ausa gríðarlegum fjárhæðum út í skattalækkanir til útgerðarinnar og efnafólksins í landinu. Ég held að þó að við séum að fylgja þeirri áætlun sem síðasta ríkisstjórn, Samfylkingin og Vinstri grænir, lagði upp með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ná þeim árangri sem þar var að stefnt í ríkisfjármálunum og í hagvexti í landinu þurfi menn enn að gæta nokkurs aðhalds, einkanlega í skattalækkunum til vitlausra hópa á versta tíma og geyma sér að deila út góðgætinu þangað til líður á síðari hluta kjörtímabilsins og menn sjá betur hversu örugglega í hendi ávinningurinn af starfi síðustu ára er.