144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[16:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki alveg viss um að við eigum að leggja að jöfnu eða fjalla um sem sambærilegt fyrirbæri lífeyrisréttindaávinnsluna og sjóðsöfnunina þar og ýmisleg önnur verkefni þó að þau séu sameiginleg, sem takast í raun og veru á við útgjöldin jafnóðum og þau koma fyrir ár eftir ár. Vissulega erum við með markaðar tekjur eins og í vegamálin og fleira, en það eru þó viðfangsefni sem rúlla áfram og fyrir framan okkur ár frá ári og er í raun allt annars eðlis þótt menn verði að draga eitthvað niður tímabundið og krukki jafnvel eitthvað í markaða tekjustofna eða (Gripið fram í: Lífeyristryggingar versus tryggingar á einstaklinga.) fari frjálslega með það á köflum til hvers viðkomandi eyrnamörkun tekna var mörkuð.

Lífeyristryggingakerfi, einhvers konar spegilmynd þess yfir í heilbrigðiskerfinu, útgjöldunum? Nei það held ég ekki. Þar eigum við bara að horfast í augu við að þetta er ein af frumskyldum ríkisins sjálfs og það er langhreinlegast og langeðlilegast að það sé fjármagnað beint með sköttum hvers tíma. Auðvitað þarf að sýna fyrirhyggju þar og stundum þarf að leggja fyrir vegna stórra fjárfestinga eins og byggingar nýs Landspítala – háskólasjúkrahúss. Ósköp hefði það nú verið gæfulegt ef við hefðum svona fyrir 15 árum síðan sagt sem svo: Heyrðu, svona upp úr aldamótunum, ekki seinna en 2010, þurfum við að hefja byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss. Byrjum að leggja fyrir. Við skulum eiga myndarlegan byggingarsjóð þegar þar að kemur. Það er auðvitað alveg hægt þó að maður sé ekki með neinar markaðar tekjur. Það held ég að ríkið eigi frekar að gera heldur en að fara að ímynda sér að við búum til einhvers konar tryggingakerfi til hliðar við opinbera kerfið, hvort sem það er rekstur skólakerfis eða heilbrigðiskerfis. Við værum þá ekki að finna upp hjólið. Við getum skoðað hvernig það hefur gefist þar sem menn fara þá leið að fela einkamarkaðnum meira og minna starfrækslu heilbrigðismálanna og (Forseti hringir.) almenningur kaupi sér dýrar tryggingar til þess að eiga rétt í kerfinu. Dæmi: Bandaríkin, dýrasta (Forseti hringir.) heilbrigðiskerfi í heimi og mjög óskilvirkt.