148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:37]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum ekki einu sinni komin þangað að Landspítalinn geti sinnt rekstri, haldið sjó. Meiri hluti fjárlaganefndar mætir ekki einu sinni þeirri ósk, hvað þá að það sé einhver innspýting í Landspítalann. Mér er tíðrætt um að fjárlagafrumvarp Katrínar Jakobsdóttur sé einungis 2% breyting á fjárlagafrumvarpi fráfarandi ríkisstjórnar. Beytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar hljóða upp á 0,2%, þannig að í staðinn fyrir að þetta sé 2% útgáfa af því frumvarpi sem Vinstri græn og Framsókn standa að þá eru þetta 2,2%. Þetta er meira og minna sama frumvarpið og við fengum upplýsingar um hjá nefndinni. Fulltrúi Öyrkjabandalagsins sagði meira að segja að þetta fjárlagafrumvarp væri „copy/paste“ frá því frumvarpi sem ekki síst Vinstri græn gagnrýndu hatrammlega í aðdraganda kosninga en Framsóknarflokkurinn líka.

Það þýðir ekki að mínu mati að koma hér, hver stjórnarliðinn á fætur öðrum, og segja: Já, við vildum gjarnan geta gert meira. — Þá óska ég þess bara að við gerum meira. Til dæmis að við hefðum hækkað kolefnisgjöldin eins og til stóð, það kostar ríkissjóð 2 milljarða. Ef við hefðum ekki farið í þá vegferð sem Vinstri græn og Framsóknarflokkur styðja, ef við hefðum bara hækkað kolefnisgjöldin eins og til stóð og sett þá 2 milljarða í Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri, værum við komin langleiðina að því marki sem þau óskuðu eftir. Leiðirnar eru svo sannarlega fyrir hendi en það sem skortir á er hinn pólitíski vilji. Það gagnrýni ég og þykir virkilega miður.