149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[14:35]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég get hughreyst þingmanninn með því að eftir að þetta fyrirkomulag var tekið upp á þessum þremur stöðum sem var samið við hefur það líka verið tekið upp á hinum tveimur stöðunum sem eru í einkarekstri á höfuðborgarsvæðinu. Hvort sem það er nýja fjármögnunarmódelið eða sú staðreynd að þetta fyrirkomulag er a.m.k. til í heilsugæslu hefur aðsóknin í heimilislækningar á Íslandi stóraukist og aldrei verið fleiri í námi hér á landi í því fagi. Auðvitað er það fínt.

Þingmaðurinn ræddi í ræðu sinni svolítið um að það að vera ekki með hagnaðardrifna heilbrigðisþjónustu virkaði ekki, það drægi tennurnar úr einkaframtakinu ef ég skildi hann rétt. Hvernig skýrir þingmaðurinn það þá að til að mynda í Bandaríkjum Norður-Ameríku og á Englandi er mjög rík hefð fyrir „non-profit“ þjónustu í heilbrigðisþjónustu? Það eru oft öflugustu menntastofnanirnar í þessum löndum. Þær eru oft og tíðum einmitt notaðar í háskólakennslu. Þar er hugmyndafræðin sú að skili rekstur þessara stofnana ábata sé þeim ábata veitt inn í reksturinn til að bæta þjónustuna, til að fjölga þeim sem fá þjónustu og jafnvel taka upp nýja þjónustuþætti.

Er þingmaðurinn fráhverfur þessum hugsunarhætti?