149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[14:59]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þingmaður erum greinilega að nálgast, við viljum hvorugur að arðsemiskrafa sé reiknuð inn í samningana og það er ágætt. Að öllu gamni slepptu þá skil ég sjónarmið þingmannsins alveg og það er eins og það er.

Ég verð að nefna það sem hv. þingmaður kom inn á áðan, af hverju megi hagnast eða borga arð af tiltekinni starfsemi sem ríkið kaupir fyrir heilbrigðisþjónustuna en ekki annarri. Hann nefndi nokkrar iðngreinar sem dæmi. Áður en ég spyr hv. þingmann að næstu spurningu þá verður að nefna það að þetta er ekki eðlislægt sama starfsemin, heilbrigðisþjónusta og þjónusta sem ríkir kaupir af iðnaðarmönnum, það er ekki eðlislægt sama þjónustan.

Mig langar hins vegar að benda þingmanninum á að til eru dæmi um svokallað „single payer“-kerfi —fyrirgefðu, forseti — í nýrnalækningum í Bandaríkjum Norður-Ameríku þar sem ríkið borgar nánast allar nýrnalækningar, en allar nýrnalækningar í Bandaríkjunum eða nánast allar eru reknar af einkaaðilum. Samt sem áður er það þannig að í því kerfi, þar sem ríkið borgar allan kostnaðinn, er miklu hærri kostnaður og lélegri útkoma af þjónustunni en er í flestum Evrópuríkjum. Hvernig skýrir þingmaðurinn það? Ég er ekki að biðja hann að skýra það út frá læknisfræðilegum forsendum, heldur út frá hagfræðilegum forsendum. Hvernig stendur á því að þegar einkaaðilar komast inn í sjálfkrafa „single-payer-system“, eins og það er í Bandaríkjum í þessum tiltekna sjúkdómaflokki, þá, þegar það er borið saman við þjónustuna annars staðar í heiminum, kemur hún miklu verr út, bæði fjárhagslega og hvað varðar niðurstöðu lækninganna.