150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

stofnun embættis tæknistjóra ríkisins.

15. mál
[19:22]
Horfa

Flm. (Smári McCarthy) (P):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um stofnun embættis tæknistjóra ríkisins. Tillaga þessi var áður lögð fram á 146. og 149. löggjafarþingi og er nú endurflutt með breytingum á greinargerð. Markmiðið er að stofnað verði sérstakt embætti tæknistjóra ríkisins sem hafi yfirumsjón með tæknilegum innviðum Stjórnarráðsins og stofnana ríkisins svo unnt verði að taka þau föstum tökum og byggja m.a. upp góða tækniþekkingu innan stofnunarinnar og lækka útgjöld ríkisins með stærðarhagkvæmni.

Ör tölvuvæðing stjórnkerfisins á undanförnum árum hefur leitt til þess að flestar ríkisstofnanir hafa þróað ýmiss konar sérhæfð hugbúnaðarkerfi til að geta sinnt hlutverki sínu betur en ella. Umræddur hugbúnaður er í mjög mismunandi ásigkomulagi en viðhaldi hefur í sumum tilfellum verið ábótavant, auk þess sem annar hugbúnaður er í stöðugri þróun. Hugbúnaðurinn er þróaður á mismunandi forritunarmálum og í mismunandi aðgerðasöfnum sem sum hver eru verulega úrelt og viðhaldi framleiðanda hefur í sumum tilfellum verið hætt. Algengt er að hugbúnaður hafi þekkta öryggisgalla sem ekki hefur verið bætt úr og vafalaust eru margir óþekktir gallar eins og í öllum hugbúnaði. Nánast ekkert af hugbúnaðinum hefur gæðahandbók, sjálfvirka prófun eða áætlun fyrir lagfæringar á þekktum göllum. Ýmsar ríkisstofnanir hafa gert sér grein fyrir þessu vandamáli og hafa leitast við að laga það með ýmsu móti en umræddar stofnanir hafa litla burði til að sinna hugbúnaðarþróun, enda er það aldrei hlutverk þeirra. Þá eru verkefni oft boðin út en verktakar hafa þá gjarnan yfirburðasamningsstöðu gagnvart verkkaupum því að þótt stofnanir ríkisins viti vel hvaða sérhæfðu vandamál þeim er ætlað að leysa er sjaldan þekking innan húss til að tryggja góða tæknilega framkvæmd. Stærri hugbúnaðarkerfum er yfirleitt viðhaldið samkvæmt samningi en dæmi eru um minni kerfi sem eru sjaldan eða aldrei uppfærð.

Á 149. löggjafarþingi voru sendar út skriflegar fyrirspurnir til viðkomandi fagráðherra varðandi nokkur stærri og betur þekkt hugbúnaðarkerfi sem eru í notkun hjá ríkisstofnunum eða ráðuneytum. Spurningarnar sneru að ýmsum þáttum varðandi höfundarétt, auðkenningaraðferð og kostnað og hvort hugbúnaðurinn hefði verið gefinn út með frjálsum leyfum. Ekki bárust svör við öllum fyrirspurnum en eins og kemur fram í tillögunni er ákveðið form á þessu. Í þeim tilfellum þar sem höfundarétturinn hefur haldist hjá verktaka frekar en að færast yfir til viðkomandi stofnunar er yfirleitt um stærri verkefni að ræða. Ég ætla ekki að fara alveg í gegnum þetta allt hér og nú, bara að nefna að það virðist líka vera ákveðinn misskilningur á ferð um hvert markmiðið sé með því að opna hugbúnaðarkóða. Þar er nefnt m.a. að LÖKE-kerfi ríkislögreglustjóra sé ekki opnað til að gæta öryggis en allir sem hafa unnið við öryggismál í hugbúnaðarkerfum vita að það að kóðinn sé lokaður er ekki öryggisráðstöfun heldur verður maður alltaf að ganga út frá því að óvinurinn, hugsanlegur árásaraðili, þekki kóðann út og inn og öryggi kerfisins verður að vera byggt á öðrum þáttum. Markmiðið með því að opna kóða er ekki síst að njóta góðs af þeirri samvinnu sem getur orðið til þegar fólk úti í samfélaginu sér ágalla sem er hægt að bæta úr.

Tillagan snýst í grundvallaratriðum um að búin verði til einhvers konar stofnun og fundnar lausnir á þessum vandamálum. Hliðstæðar stofnanir hafa verið starfandi t.d. í Bretlandi og Bandaríkjunum og er tillagan að nokkru leyti byggð á reynslu þeirra landa. Markmiðið með þessari leið er að hægt verði að ná fram miklum sparnaði, auka öryggi og auka skilvirkni. Það verði jafnframt mögulegt fyrir mismunandi hugbúnaðarkerfi á vegum ríkisins að hafa sameiginleg opin aðgerðasöfn, sameiginlega viðmótsstaðla o.s.frv.

Ég ætla bara að nefna í lokin, úr því að tíminn hratt líður í kvöld, að íslenska ríkið var eitt sinn mjög framarlega í hugbúnaðarmálum. Við vorum mjög framarlega í upplýsingatæknimálum en sá tími er liðinn. Við erum búin að dragast verulega aftur úr, að hluta til vegna hrunsins og að hluta til vegna sinnu- og áhugaleysis innan stjórnkerfisins, og það er mjög vandræðalegt, herra forseti, að við glötum niður þessari stöðu, eins öflugt þekkingarsamfélag og við erum. Ég hef átt mörg samtöl við fólk, bæði í stjórnkerfinu og hjá fyrirtækjum úti í samfélaginu, á undanförnum árum og allir eru sammála um að við getum náð mjög góðum árangri með mjög lítilli fyrirhöfn ef það er tekið vel á þessum þáttum. Þessi tillaga dettur ekki af himnum ofan. Hún er byggð á reynslu fólks. Ég hef fengið veður af því, herra forseti, að í fjármálaráðuneytinu sé í gangi vinna við að bæta þessi ferli að einhverju leyti og þá fellur þessi tillaga ágætlega vel að því sem ákveðinn leiðarvísir.

Að lokum er ekkert annað í stöðunni en að leggja hreinlega til að þingsályktunartillaga þessi fari áfram til efnahags- og viðskiptanefndar, svo til síðari umr. og verði að lokum samþykkt.