150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

stofnun embættis tæknistjóra ríkisins.

15. mál
[19:32]
Horfa

Flm. (Smári McCarthy) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni. Það er alveg hárrétt sem hann nefnir. Það hefur verið fjallað svolítið um það í fræðunum hversu mikil hætta er á mögulegum stafrænum miðöldum, að það hvað gögn eru hreinlega illa geymd geti orðið til þess að þekking samfélagsins á sjálfu sér glatist mjög ört. Þetta er nokkuð sem við verðum að sinna mjög vel. Það er því algjörlega hárrétt að það verður að halda þannig um hlutina að við vitum hvaða gagnagrunnar eru til og að Þjóðskjalasafn Íslands viti það, sem ég reyndar vann hjá á sínum tíma og bjó til líklega einn af þeim gagnagrunnum sem hv. þingmaður nefnir. Ég þekki það líka að það er erfitt að sinna viðhaldi, sérstaklega hjá stofnunum sem hafa ekki endilega þetta tiltekna hlutverk. Ég hef rosalega mikla samúð með því tiltekna dæmi sem hv. þingmaðurinn nefnir, vitandi hvernig það allt saman fór.

Varðandi rekstrarfélagið er því gert að sjá um mjög marga ólíka hluti og að mínu mati verður tæknifókusinn ekki endilega réttur. Það er ákveðin tilhneiging til að kaupa dýr kerfi hjá kannski bandarískum fyrirtækjum og úthýsa jafnvel mikilvægum gögnum sem snúa að þjóðarhagsmunum, þjóðaröryggismálum og öðru, til fyrirtækja, kannski bandarískra, sem eru með gögn í geymslu í Hollandi eða á Írlandi sem gengur kannski þvert á okkar hagsmuni. Það eru mjög margir vinklar sem hægt er að horfa á og langt frá því að það sé allt upp talið í tillögunni þrátt fyrir að auðvitað höfum við reynt að taka til flestra þátta.